Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Loðnuvertíðin er komin í fullan gang. Í þessum töluðu orðum er hrognafylling 17% og hrognavinnsla getur hafist á næstu dögum. Undir er tugmilljarða verðmætasköpun á skömmum tíma. Mikið er fryst af kvenloðnu sem fer til Japan og hæng sem fer á Austur-Evrópumarkað. Verð á mjöli og lýsi er í hæstu hæðum en ástæða þess er mikið fiskeldi sem vex og vex um allan heim. Undirstaða í fóðri í fiskeldi, fyrir lax og rækju, er fiskimjöl og lýsi. Lax- og rækjueldi vex og hafa Ekvadorar t.d. tekið 20% af landbúnaðarlandi í landinu undir rækjueldi. Uppsjávarstofnar hafa staðið í stað á sama tíma og eftirspurn eftir mjöli og lýsi fer vaxandi og verðið hækkar. Það gerist þrátt fyrir að hlutfall fiskimjöls í fóðri hafi farið úr 35% í 12% á liðnum árum. Það er því lán í óláni að rafstrengur til Eyja bilaði tímanlega fyrir loðnuna svo hægt var að bregðast við með því að koma dísilvélum til Eyja, og nú er verið að gera lagfæringar á strengnum til að auka enn öryggið þar til endanleg viðgerð getur farið fram á vormánuðum. Ef strengurinn hefði bilað korter í loðnu hefði getað farið illa í Eyjum sem minnir okkur á að við verðum að vera vakandi fyrir innviðum landsins sem eru undirstaða verðmætasköpunar þjóðfélagsins.

Birtingarmynd orkuskorts í Eyjum er að það er ekki nægileg raforka til að hlaða Herjólf, flaggskip framtíðarinnar í orkuskiptum, og siglir hann á dísilolíu. Kolefnisspor af þeim breytingum er að Herjólfur losar 13 kíló af kolefni er hann siglir á rafmagni á móti 1.224 kílóum af kolefni þegar hann siglir á olíu. Á hverjum degi þegar siglt er á rafmagni eyðir Herjólfur því 17 tonnum minna en með olíu. Til samanburðar losar meðal fólksbíl 3 tonn af kolefni miðað við 15.000 km á ári. Það er með ólíkindum hve margir berjast gegn sterkum innviðum og orkuskiptum í atvinnulífinu.

Virðulegur forseti. Við þurfum að styrkja innviði landsins, tryggja að sveitarfélögin fái eðlilegar tekjur af raforkuframleiðslunni innan sinna sveitarmarka svo orkuskipti geti farið fram í vaxandi atvinnulífi.