Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og menn hafa rætt þá er gegndarlaus útgjaldaaukning ríkisins, þessarar ríkisstjórnar, auðvitað stór liður í þeirri verðbólguþróun sem við horfum upp á. En þó er ekki víst að ríkisstjórnin eigi öll met því að borgaryfirvöld, borgarstjórn Reykjavíkur, eyða svo gífurlega umfram tekjur að skuldir borgarinnar eru í raun orðnar ósjálfbærar, held ég að verði að segjast. Og þá er farið í sparnaðaraðgerðir, niðurskurðaraðgerðir. Leikskólakennurum er fækkað og nú stendur til að loka Borgarskjalasafninu. Þetta varðar ríkið, eins og reyndar fjárhagsvandræði Reykjavíkur lenda oft og tíðum hjá ríkinu og framtíðarfjárhagsvandræði Reykjavíkur líka með áform gjaldþrota borgar um að ráðast í fráleitlega dýrt, óhagkvæmt og skaðlegt innviðaverkefni. En ég ætla að láta nægja að fjalla um Borgarskjalasafnið nú því á sama tíma og borgin heldur áfram að auglýsa nýjar stöður einhverra verkefnisstjóra fyrir hitt og þetta þá sker hún niður grunnþjónustuna, leikskóla og í tilviki Borgarskjalasafnsins virðist borgin hafa fundið enn eitt ráðið til að færa útgjöld frá sér yfir á ríkið með því að segja við ríkið: Takið þetta bara. Þannig er sparað hjá borginni en aukin útgjöld hjá ríkinu. Þess vegna þarf Alþingi að fara að fylgjast með óráðsíunni í Reykjavík til viðbótar við óráðsíuna hjá eigin ríkisstjórn. Auðvitað er tilefni til að spyrja viðeigandi ráðherra út í þetta en þingið þarf líka að passa upp á það hvernig þessi útgjöld verða til úti um allt, í ráðuneytum þessara ráðherra hér og hinum megin við Vonarstrætið þar sem borgin finnur sífellt nýjar leiðir til að setja útgjöld sín yfir á þingið, yfir á ríkissjóð.