Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegur forseti. Auglýsingalæsi er hluti af læsi í víðu samhengi. Það snýst um að geta hugsað um auglýsingarnar með gagnrýnum hætti og sett þær í samhengi. Þetta hugtak kemur manni í hug vegna þess að ein auglýsing tiltekinnar ferðaskrifstofu í Venesúela hefur vakið mikið umtal. Þar eru auglýstar ferðir til Íslands og taldir upp kostir þess að setjast hér að, svo sem góð laun og öflugt velferðar- og menntakerfi. Þessu hafa sumir leyft sér að hneykslast yfir á þeim forsendum að þetta sýni það nú að hér sé verið að gera allt of vel við flóttafólk, það sé bara í einhvers konar verslunarleiðangri eftir betri lífsgæðum eða ætli jafnvel að setjast hér að á einhver velferðarkerfi. Þegar fólk er með sterkar fyrirframgefnar hugmyndir um að þetta sé einmitt svona, að flóttafólk frá Venesúela eða jafnvel stór hluti flóttafólks almennt séð sé ekki alvöruflóttafólk heldur bara afætur, er hætt við að svona ályktanir séu dregnar af minnsta tilefni og ekkert hugsað um hina stærri mynd. Hver er þá hin stærri mynd? Hún er sú að rúmlega 7 milljónir manna hafa flúið frá Venesúela síðan 2015. Svona flóttamannakrísa verður ekki til bara vegna þess að milljónir íbúa landsins fá allt í einu áhuga á að sækja sér einhver betri lífsgæði. Í Venesúela hefur þetta gerst vegna þess að ríkisstjórnin fremur mannréttindabrot á borgurum sínum og á almennt erfitt með að vernda mannréttindi borgaranna. Ríkisstjórn Íslands viðurkennir þessi mannréttindabrot á alþjóðavettvangi. Við heyrum líka af þessu frá fólkinu sjálfu sem hefur komið hingað frá Venesúela, svo sem frá Álvaro Abdiel Santiakob sem veitti viðtal hjá RÚV í fyrradag en hann er stjarneðlisfræðingur sem starfar hjá Hjálpræðishernum. Um ástandið í Venesúela segir hann að mannréttindi fólks séu brotin þar, fólk sé ofsótt og pyntað og þar sé matar- og vatnsskortur og skortur á lyfjum. Síðan segir hann að það séu þrjár ástæður fyrir því að flóttafólk frá Venesúela (Forseti hringir.) kemur hingað sérstaklega; fjölskylda þess er hér, að það komi í leit að friði og vegna þess að hér er ekki útlendingahatur. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja fólk til að huga frekar að því sem fólkið sjálft (Forseti hringir.) frá Venesúela hefur að segja um sitt líf og þær aðstæður sem það er að flýja en að þeim veruleika sem birtist í auglýsingamennsku. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími er takmarkaður í umræðum um störf þingsins. Ræðutími er tvær mínútur en ekki tvær og hálf, þannig að það sé áréttað.)