Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[14:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í fundarstjórn forseta í gær mátti skilja hæstv. forseta þannig að það sem helst stæði í vegi fyrir því að forseti heimili birtingu á greinargerð setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, um Lindarhvolsmálið væri sú afstaða Ríkisendurskoðunar að um vinnuskjal væri að ræða og því mætti ekki birta hana. Forseti vísaði í 3. mgr. 15. gr. laga um ríkisendurskoðanda máli sínu til stuðnings en hann virðist trúa því að sú grein skyldi Alþingi til að halda leynd yfir greinargerðinni. Frá því að við hæstv. forseti ræddum um þetta mál í gær ásamt öðrum hv. þingmönnum í fundarstjórn forseta hef ég fengið ábendingu um að þau lögfræðiálit sem forsætisnefnd hefur látið framkvæma fyrir sig um þetta mál taki einmitt á þessu álitaefni sem forseti ber hér upp til að verja leyndarhyggju sína. Því tel ég rétt að fara þess á leit við forseta að hann birti þessi lögfræðiálit opinberlega til að við getum rætt þessi álitamál fyrir opnum tjöldum.