Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[14:12]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur sem vekur máls á þessu eina ferðina enn, og það hafa þingmenn svo sem verið að gera hér í röðum undanfarnar vikur og mánuði. Fyrir mér er þetta mál afskaplega einfalt. Þegar almenningur, fólkið í landinu, þarf að velta því fyrir sér hvernig farið er með opinbera fjármuni og hvernig farið er með eigur almennings þá eru meiri og ítarlegri upplýsingar betri en færri og minni upplýsingar. Það liggur alveg í hlutarins eðli. Ef það er þannig að skýrsla Ríkisendurskoðunar og greinargerð setts ríkisendurskoðanda stangast á, þess þá heldur á almenningur rétt á að fá að leggja mat á hvað þarna er í gangi. Þau rök að það geti bara verið ein skýrsla eru afskaplega hæpin og við eigum ekki að hlusta á slíkt. Það á að birta þetta og almenningur hlýtur að eiga góða og skýra kröfu á því. Ég minni á að hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) birti kaupendalistann í Íslandsbankasölunni þvert á það sem Bankasýslan vildi, (Forseti hringir.) einmitt á þeim forsendum að almenningur þyrfti að hafa góðar og gildar upplýsingar í höndunum til að geta lagt mat á málið. Það sama á við hér.