Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[14:17]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í fjölmiðlum í morgun mátti lesa eftirfarandi fyrirsögn:

„Leyndin um Lindarhvol orðin að sjálfstæðum ímyndarvanda fyrir þingið“.

Mér finnst þetta ramma ágætlega inn þá stöðu sem við erum í. Í nýlegri könnun um traust á stofnunum kemur í ljós að þingið er að tapa talsverðu af því trausti sem það þó hafði, sem var nú kannski ekki svo mikið. En maður veltir því þá fyrir sér: Hver er ástæðan? Getur þetta m.a. verið ástæðan? Fólk er hætt að treysta okkur. Á mínum stutta ferli hér á þingi er ég er búinn að upplifa Íslandsbankasöluna sem bjó til mikla úlfúð í samfélaginu, við erum búin að upplifa ÍL-sjóðinn og nú erum við að upplifa þennan Lindarhvol. Hversu lengi ætlum við að halda svona áfram?