Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[14:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar til að minna á aftur, svona upp á samhengi þessa máls alls að gera, að það er viðtal á vísi.is við Sigurð Þórðarson, settan ríkisendurskoðanda í þessu máli, þann sama og hafði í 20 ár þar áður verið ríkisendurskoðandi, trúnaðarmaður Alþingis. Fyrirsögnin er, með leyfi forseta: „Telur óeðlilegt að sitja árum saman undir ávirðingum.“ Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2020 er töluvert um það að vísað sé, með þeim hætti sem þar er gert, í greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, þannig að það er auðvitað mjög erfitt fyrir settan ríkisendurskoðanda að bera hönd fyrir höfuð sér ef gagnplaggið sem Ríkisendurskoðun vísar svo frjálslega til í skýrslu sinni er ekki opinbert. Það eitt og sér ætti að auðvelda okkur (Forseti hringir.) að taka þessa ákvörðun, að birta greinargerðina loksins sem nú hefur legið hjá þinginu síðan 2018.