Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

sjúkratryggingar.

679. mál
[16:39]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Vissulega viljum við öll gera vel og ég er mikil samvinnukona og vil treysta því að með samtali og samvinnu náist samningar. Það er vissulega markmið okkar allra að enginn neiti sér um heilbrigðisþjónustu af neinu tagi vegna kostnaðar. Það er hvorki einstaklingnum né samfélaginu til framdráttar þegar horft er til framtíðar. Hins vegar verðum við að leita sátta í þessu máli og leita lausna sem allir geta við unað. Eins og ég kom að hérna áðan þá eru samningaviðræður í gangi á milli Sjúkratrygginga Íslands, ráðherra og sérfræðilækna og við bindum öll vonir við að samningar náist sem fyrst. En ég vil spyrja hv. þingmann um hugmyndir hans varðandi aðgengi að sérfræðilæknum um allt land, sem er eitt af lykilatriðum þess að bæta heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Staðan er einmitt sú að aðgengi versnar hratt því lengra sem þú ferð frá höfuðborgarsvæðinu. Telur hv. þingmaður að frumvarp þetta stuðli að frekari mönnun sérfræðilækna utan höfuðborgarsvæðisins og ef svo er, með hvaða hætti?