Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

sjúkratryggingar.

679. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er þetta ekki í fyrsta sinn sem svipuð staða hefur komið upp, þó að þetta sé einstaklega langur tími núna sem samningsleysi hefur varað. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji þetta ástand vera ásættanlegt, hvort það verði ekki að verja veikt fólk í lögum, hvort við hér, sem erum kjörin til þess einmitt að verja almannahag, sjáum til þess með lögum að svona ástand geti bara ekki komið upp. Við erum að tala um heilbrigðisþjónustu sem gegnir öðru máli um en um venjuleg viðskipti með vörur og þjónustu. Setjum svo að eftir tvö ár, og samningar hafi verið lausir í sex ár, verði hæstv. heilbrigðisráðherra enn með málið í forgangi og það sé verið að reyna að semja en samningar hafi ekki nást. Við getum teiknað upp alls konar stöðu og það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það er ákveðinn kostnaður sem hefur vitanlega lagst á læknastöðvarnar og rekstur þeirra á þessu fjögurra ára tímabili. En það er bara ekki réttlátt að það sé veika fólkið og það séu sjúklingarnir sem borgi þann kostnað.

Hv. þingmaður vill ekki gerðardóm. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvaða lausn sér hún á þessu máli eða finnst henni ástandið bara í lagi eins og það er?