Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

stjórn fiskveiða.

105. mál
[17:44]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég sá að málið, stjórn fiskveiða, er á dagskrá hér í dag þá stóðst ég ekki mátið að stíga hér aðeins upp því að þann 12. janúar 1999 flutti ég mína jómfrúrræðu hér í þessum sal um þetta málefni undir málsheitinu Stjórn fiskveiða. Þá hafði Hæstiréttur úrskurðað að stjórn sóknar í sjávarútvegsauðlindina stangaðist á við stjórnarskrána, en á einhvern hátt tókst þáverandi ríkisstjórn að vinda sér undan þeim úrskurði á snyrtilegan hátt án þess að nokkrar breytingar yrðu á þessu ágæta kerfi. Við í Samfylkingunni stöndum fyrir það að sókn í okkar auðlindir sé með sjálfbærum hætti og að tryggt verði að ekki sé gengið á auðlindir okkar á þann hátt að skaði hljótist af.

Flutningsmaður þessarar ágætu tillögu sem hér er til umræðu í dag, hv. þm. Inga Sæland, hefur sköruglega gert grein fyrir sínum rökum í þeim efnum að heimila strandveiðar á fleiri dögum eða með öðru fyrirkomulagi en við lýði er í dag. Í sjálfu sér eru hennar rök mjög sannfærandi um það að þarna sé hætta til staðar gagnvart lífi og limum þeirra sem eru að sækja sjóinn á dögum sem fyrir fram eru ákveðnir án tillits til veðurfars. Mig langaði til að taka undir að það er full ástæða til að skoða þetta kerfi með tilliti til öryggishagsmuna sjósækjenda og tek þar af leiðandi undir þau orð hv. þingmanns.