Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

búvörulög og búnaðarlög.

127. mál
[18:42]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ákaflega gaman að verða vitni að því þegar lögð eru fram svona vönduð frumvörp eins og það sem hér er til umræðu og gaman að sjá þegar heill þingflokkur leggur svona mikla vinnu í það að fara í gegnum þennan, ég veit ekki hvað skal kalla það; þessi búvörulög eru eins konar hornsteinn íslensks samfélags, er það ekki? Eða a.m.k. hornsteinn allrar stjórnmálaumræðu, einn af þeim, í landinu í áratugi.

Mér hefur liðið stundum þessa daga sem ég hef verið hér inni eins og ég sé svolítill draugur sem hefur komið út úr veggnum. Það er enginn þingmaður eftir af þeim sem sátu með mér hér á þingi 1998 og 1999 og ég er svona draugurinn sem mætir. En vissulega hafa hlutir breyst. Það er búið að byggja nýtt hús hérna við hliðina og svona, en það er enn verið að tala um sömu málin. Í þessu tiltekna máli hefur ekkert breyst — ekkert breyst. Það er í sjálfu sér alveg makalaust því að þetta kerfi var í grunninn búið til sem viðbragð við kreppunni miklu á fjórða áratugnum, í lok þriðja og í byrjun fjórða áratugarins. Þá var ríkisvaldið að taka atvinnugreinarnar í sínar hendur til að bregðast við þeim óskunda. En það hefur ekki náðst að vinda ofan af þessu. Þetta er eitt af því fáa sem ekki hefur náðst að vinda ofan af þótt liðin séu hátt í 100 ár síðan þetta gerðist.

Ég tek auðvitað eftir því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu, talar auðvitað beint inn í sinn gamla stjórnmálaflokk, Sjálfstæðisflokkinn þegar hún talar um frelsi og samkeppni í tengslum við þetta frumvarp og synd að enginn úr þeim flokki sé hér inni til að hlusta á þau orð. Hún nefni líka til sögunnar alla réttu aðilana sem hafa lagt blessun sína yfir þetta góða frumvarp, fyrir utan kannski Samkeppniseftirlitið. En ég verð hins vegar að segja að þetta talar líka mjög inn í mitt hjarta. Ég hef löngum haft þá skoðun að það sé löngu tímabært að taka til í þessu gamla kerfi sem búið hefur verið til utan um landbúnaðinn og er í rauninni einhvers konar furðufyrirbæri. Ef maður á að trúa fréttum úr landbúnaðinum, virðulegur forseti, þá virðast bændur ævinlega lepja dauðann úr skel þannig að þetta virðist hvorki vera til hagsbóta fyrir bændur né fyrir neytendur. Fyrir hverja er þetta kerfi? Ég segi nú ekki annað. Auðvitað veit ég það, en það verður því miður kannski aldrei viðurkennt upphátt af talsmönnum þess.

Ég verð nú að viðurkenna að ég missti aðeins áhugann á þessu gamla góða baráttumáli míns gamla flokks, Alþýðuflokksins, eftir að ég hætti að borða kjöt og hætti að þurfa að borga fyrir þessar landbúnaðarafurðir. En vissulega eru auðvitað margir enn sem greiða þetta dýru verði því að þessar vörur eru ekki gefins. Svo sannarlega myndi aukin samkeppni, frelsi og samkeppni, eins og hv. þingmaður orðaði það, alveg örugglega leiða til hagstæðara verðs á landbúnaðarafurðum. Neysluvenjur fólks hafa verið að breytast og það er tekið tillit til þess í þessu frumvarpi og í II. kafla er í rauninni ákaflega góð grein þar sem talað er um að þar komi inn umhverfisvernd, skógrækt, lokun framleiðsluskurða, smávirkjanir og ferðaþjónusta því að landbúnaðurinn, eða hvað á maður að segja, nýting bújarða í kringum landið hefur verið að breytast og þarf að breytast, líka bara í takt við það að kjötneysla og kjötframleiðsla eru auðvitað einn af þeim þáttum sem leiða til gróðurhúsaáhrifanna og þarf auðvitað að taka það með í reikninginn.

Annars vil ég bara segja að ég tek undir með hv. þingmanni um að það er löngu kominn tími til þess að landbúnaður á Íslandi komist inn í 21. öldina og við kveðjum þessa arfleifð kreppunnar í eitt skipti fyrir öll. Ég er alveg sannfærður um það, vegna þess að ég þekki til hinna úrræðagóðu íslenskra bænda, að þeir myndu spjara sig vel undir þessu kerfi, undir breyttu kerfi og þegar þeir myndu þurfa að leggja áherslu á hin miklu gæði sinna framleiðsluvara. Ég efast ekkert um að þeir hefðu betur í samkeppninni þegar að því kemur.