Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu.

[10:47]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Nú er ár liðið frá því að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu eins og hér hefur komið fram. Síðan hefur verið styrjöld í Evrópu. Það er óhugnanlegt að hugsa til þeirra voðaverka sem framin hafa verið gagnvart úkraínsku þjóðinni og maður fyllist sorg yfir því hvernig sprengingar og dráp hafa orðið hluti af daglegu lífi venjulegra borgara í Úkraínu. Fólk verður dofið. Við verðum dofin gagnvart þessum hryllingi eftir því sem tíminn líður. Stríðsfyrirsagnir fjölmiðlanna hafa minni slagkraft eftir því sem stríðið dregst á langinn og við venjumst því eins og hverju öðru ástandi í ekki svo fjarlægu landi. Við megum hins vegar aldrei gleyma því að á bak við fréttirnar er raunveruleg þjáning. Við megum heldur aldrei gleyma því að stuðningur okkar hefur áhrif og þess vegna höfum við Íslendingar lagt okkar af mörkum í samstarfi með vinaþjóðum okkar í NATO og öðrum þeim þjóðum sem deila okkar hugmyndafræði og þess vegna höfum við m.a. lagt mikla áherslu á að taka vel á móti því fólki sem flúið hefur heimili sín í Úkraínu vegna styrjaldarinnar.

Ég óska þess, eins og við væntanlega öll, af öllu hjarta að stríðinu ljúki og Úkraínumenn geti að nýju lifað friðsælu og góðu lífi þar sem ógn og dauði er ekki hluti af hinu daglega lífi. Ég fordæmi framferði rússneskra stjórnvalda og vona að rússneska þjóðin losi sig við stríðsóða forystumenn sem hafa leitt þjóð sína í þennan ömurlega leiðangur. Stríðslok og friður er eina ásættanlega niðurstöðu. Þar stöndum við með Úkraínu og hinum frjálsa heimi.