Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu.

[10:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að við tökum okkur tíma hér á þessari elstu löggjafarsamkomu heims að minnast þess að nú er um ár síðan við upplifðum innrás Rússlands í Úkraínu. Við verðum og eigum að staldra við og horfast í augu við þá staðreynd að fyrir rétt rúmu ári síðan þótti nánast óhugsandi að slík innrás gæti átt sér stað. En tíminn hefur svo sannarlega leitt annað í ljós. Það var tilfinningaþrungið og ógnvænlegt að horfa úr fjarlægð á veraldarsöguna skrifast fyrir framan augun á okkur. Hörmungarnar sem saklaust fólk í Úkraínu hefur mátt þola í kjölfarið eru óbærilegar. Vanmáttartilfinning sem eðlilega grípur um sig á slíkum stundum er skiljanleg en hún má alls ekki vera allsráðandi og það hefur hún ekki verið, þökk sé baráttuþreki og styrk úkraínsku þjóðarinnar og Zelenskís forseta.

Ef við horfum á stóru myndina og lítum inn á við og á það alþjóðakerfi sem við Íslendingar erum þátttakendur í þá blasir við að full þátttaka okkar í þessum kerfum, í alþjóðasamstarfi, er virkasta leiðin til að tryggja þau pólitísku markmið þjóðarinnar að verja öryggi okkar og fullveldi. Vera okkar í NATO var ekki markmið í sjálfu sér, ekki frekar en að pólitískt markmið míns flokks um að leyfa þjóðinni að kjósa um Evrópusambandsaðild snýst ekki um Evrópusambandið sjálft heldur þann ríka vilja okkar til að vera fullir þátttakendur við að byggja upp réttlátara samfélag, friðsama Evrópu. Gleymum því heldur ekki að bæði þessi bandalög urðu einmitt til sem viðbragð við tveimur heimsstyrjöldum á fyrri hluta síðustu aldar með öllum þeim hryllingi sem þeim fylgdi fyrir þær kynslóðir sem þá lifðu. Markmiðið var öðru fremur að byggja upp lýðræðislega og samhenta Evrópu og tryggja frið þannig að aðrar eins hörmungar myndu aldrei endurtaka sig.

Horfandi til baka yfir síðasta ár, virðulegur forseti, þá hefur sannarlega reynt á innviði þessara kerfa og stofnana þeim tengdum. Margt hefur gengið vel, annað ekki. En staðreyndin er sú að markmið Rússa um að valta m.a. yfir þessa innviði og vestrænt samstarf leiddi til vanmats á styrknum sem tilurð þessara alþjóðlegu stofnana og bandalaga byggir á, um frelsi, um lýðræði og mannréttindi og um frið. Gerræðislegir tilburðir og offors, ofbeldi og glæpir Rússa í Úkraínu hafa nefnilega ekki veikt vestræn lýðræðisríki. Þvert á móti hefur samstaða og samheldni um frið og lýðræði aukist. Átökin hafa ekki dreift úr sér um alla Evrópu. Þessi bandalög eru að vinna að lausnum og viðbragði sem miðar að frekari friði og lýðræðisuppbyggingu í álfunni. Það kom líka á daginn að styrkur úkraínsku þjóðarinnar var stórkostlega vanmetinn af árásarþjóðinni. Baráttuþrek hennar og samstaða hefur verið okkur öllum innblástur og við sem hér erum, búum hér á Íslandi, búum yfir þeirri gæfu að vera frjáls og geta tekist á um ólíkar lífsskoðanir og þá stefnu sem við teljum besta fyrir okkar ágæta land. Oft á tíðum er erfitt að setja sig í spor margra bandalagsþjóða okkar í NATO og vinaþjóða í Evrópu sem búa við ríkan undirliggjandi ótta um að frelsið verði tekið af þeim, hvað þá að ætla að setja sig almennilega inn í þann veruleika sem úkraínska þjóðin stendur nú frammi fyrir dag hvern. En við sjáum það líka að aðeins saman og með fullri og óhikaðri þátttöku þar sem okkar frjálsa rödd fær að heyrast getum við lagt okkar lóð á vogarskálarnar á móti því myrkri sem brjálaðir menn bera með sér.