153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum.

[11:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur misst alla stjórn. Ríkisstjórnin hefur misst stjórn á verðbólgunni og á vöxtunum og var fyrir löngu búin að missa stjórn á stóru velferðarmálunum sem ráða mestu um kjör og efnahag venjulegs fólks á Íslandi. Það er þaðan sem ólgan sem við sjáum nú á vinnumarkaði sprettur, verkföll og bráðum verkbann með alvarlegum afleiðingum fyrir þúsundir heimila og samfélagið allt. Ríkisstjórnin getur ekki bara bent á alla aðra og skorast undan eigin ábyrgð, bent á Seðlabankann, bent á vinnumarkaðinn, bent á fólkið í landinu. Nei, ríkisstjórnin ber sjálf ábyrgð á að stjórna þessu landi og reka samfélag okkar svo vel sé. Þess vegna vil ég nú spyrja hæstv. innviðaráðherra um húsnæðismál. Það vill svo til að Framsóknarflokkurinn hefur farið með stjórn húsnæðismála í áratug og staðan er ekki beinlínis glæsileg. En það hefur aldeilis ekki skort á loforðaflauminn frá hæstv. innviðaráðherra og félögum hans í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur um bót og betrun í húsnæðismálum. Nú síðast í þessari viku hafa tveir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar gefið í skyn að leigubremsa komi til greina. Við í Samfylkingunni höfum kallað eftir tímabundinni leigubremsu frá því í haust að danskri fyrirmynd. Við höfum kallað eftir þessu mánuðum saman og verið algjörlega samstiga Alþýðusambandi Íslands. Leigubremsa til eins árs væri mjög mikilvægt innlegg í kjaramál á þessum tímapunkti og ég spyr því hæstv. innviðaráðherra hvort hann muni hafa forgöngu um slíka lagasetningu um tímabundna leigubremsu, t.d. að danskri fyrirmynd, eins og við í Samfylkingunni höfum margítrekað lagt til hér.