Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[11:43]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála. Eins og fram kemur í 1. gr. þess er markmið frumvarpsins að ná auknum árangri á þessum sviðum og hafa jákvæð áhrif á samfélagið allt með því að efla og samhæfa opinbera stefnumótun og áætlanagerð. Frumvarpið felur í sér nýja hugsun og mikilvæga viðhorfsbreytingu á þessu sviði. Því er ætlað að ná fram aukinni samhæfingu og meiri gæðum á málefnasviðum ráðuneytisins, skarpari pólitískri aðkomu að stefnumótun og bættu samráði og samtali við almenning og hagsmunaaðila. Ég mælti fyrir sambærilegu frumvarpi á 151. löggjafarþingi, sem náði ekki fram að ganga. Frumvarpið nú er þó nokkuð breytt enda tók eldra frumvarp mið af verkefnum þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis en frumvarpið tekur nú til stefnumörkunar á málefnasviði nýs innviðaráðuneytis, þ.e. samgangna, byggðamála, húsnæðis-, skipulags- og sveitarstjórnarmála.

Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var eitt meginmarkmið með stofnun innviðaráðuneytisins að tryggja betri samhæfingu á þessum mikilvægu sviðum. Stefnur og aðgerðaáætlanir yrðu samþættar og lagðar fram samhliða til að tryggja þessa samhæfingu. Þessar stefnur verða þannig byggðar á sameiginlegum áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum. Með þeim hætti má hámarka árangur og jákvæð áhrif stefnumótunarinnar þar sem tekið er mið af tengdum málefnum og horft lengra en til sérstakra verkefna hvers málaflokks. Slík samhæfð stefnumótun sem byggir á skýrri og samræmdri framtíðarsýn leiðir til markvissari aðgerða og þar með betri nýtingar á opinberu fé, þekkingu og tækni.

Í stefnumörkun á þessum sviðum er lagður grunnur að mikilvægum innviðum samfélagsins, málefnin mynda eina heild og því hefur starfsemi á einu sviði áhrif á önnur. Rétt er að taka fram að þó að áherslan hér sé að samhæfa stefnumótun á sviði innviðaráðuneytisins er ekki dregið úr mikilvægi þess að horft sé einnig til stefnumörkunar á öðrum sviðum, ekki síst á sviði orku- og loftslagsmála. Hlýtur það að vera langtímamarkmiðið eða festa í sessi samhæfingu allrar stefnumörkunar hins opinbera.

Með gildistöku laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála, sem gildi tóku í júní 2018, var stigið mikilvægt skref í átt að aukinni skilvirkni og samhæfingu áætlana á málefnasviði þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis auk þess sem komið var á fót sérstakri stefnumótun í málefnum sveitarfélaga. Verklag var samræmt sem og form áætlana og tímaspannir, m.a. út frá forsendum laga um opinber fjármál.

Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar sem miða að því að ná fram meginmarkmiðum þess: Felld verði á brott lög um samgönguáætlun, lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir og ákvæði um stefnumótun á sviði húsnæðismála í lögum um húsnæðismál. Í staðinn koma ákvæði þessa frumvarps. Þá eru lagðar til breytingar á skipulagslögum og sveitarstjórnarlögum til samræmis. Ákvæði frumvarpsins um undirbúning og innihald hverrar stefnu eru einfaldari en ákvæði núgildandi laga, sérstaklega laga um samgönguáætlun. Með þeim lögum voru sameinaðar fjórar áður sjálfstæðar áætlanir sem kallaði á ítarleg ákvæði um efni, markmið og verklag við gerð hinnar nýju sameinuðu samgönguáætlunar. Þessi þörf er ekki lengur til staðar og þá er það meira í samræmi við þróun lagasetningar undanfarinna ára að auka frekar pólitískt svigrúm til stefnumörkunar eftir aðstæðum hverju sinni. Landsskipulagsstefna hefur nokkra sérstöðu þar sem hún setur ramma fyrir sveitarstjórnarstigið sem sér að meginstefnu til um framfylgd og framkvæmd stefnunnar. Því var talið æskilegt að hafa ákvæðið um undirbúning og gerð tillögu að landsskipulagsstefnu áfram í skipulagslögum en gera þar lágmarksbreytingar. Þá nýtur stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga nokkurrar sérstöðu vegna sjálfstæðis sveitarstjórnarstigsins og verður því áfram í sveitarstjórnarlögum.

Í frumvarpinu er kveðið á um undirbúning og framlagningu þingsályktunar um stefnur til 15 ára í hverjum málaflokki fyrir sig sem innihaldi jafnframt aðgerðaáætlanir til fimm ára. Ekki verði því um tvær áætlanir að ræða til fimm og 15 ára og verði hver stefna ásamt aðgerðaáætlun afgreidd í einu lagi á Alþingi. Þá er gert ráð fyrir því að stefnurnar verði að jafnaði lagðar fram innan árs frá upphafi nýs kjörtímabils. Að baki því býr sú hugsun að eðlilegt sé að nýtt Alþingi samþykki heildstæða stefnumörkun á hverju sviði einu sinni á kjörtímabili. Ef forsendur stefnu breytast á kjörtímabilinu eða ef tilefni er til að öðru leyti er lagt til að ráðherra leggi fram tillögu að breytingum á viðkomandi stefnu í stað þess að leggja fram nýja stefnu í heilu lagi. Gerir það bæði undirbúning og meðferð slíkra breytingartillagna einfaldari og markvissari en nú er. Gert er ráð fyrir því að undirbúningur og samráð vegna breytingartillagna verði í grunninn með sambærilegum hætti og við undirbúning heildarstefnunnar en umfang undirbúningsvinnunnar verður þó í eðlilegu hlutfalli við umfang breytinganna.

Sem fyrr segir er mikil áhersla lögð á að stefnurnar séu samhæfðar, styðji hver aðra og séu byggðar á heildstæðri stefnumörkun ráðherra. Eru það meginmarkmið að innviðir mæti þörfum samfélagsins og að til staðar séu sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um land allt. Samnefnarinn er búsetufrelsi, þ.e. að fólk geti búið sér heimili þar sem það helst kýs í því búsetuformi sem því hentar og það njóti sambærilegra umhverfisgæða innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er. Þá verður eftir sem áður byggt á þeim megináherslum sem legið hafa til grundvallar áætlunum til þessa, svo sem að stuðla að greiðum, hagkvæmum, öruggum og umhverfislega sjálfbærum samgöngum, jákvæðri byggðaþróun og öruggu húsnæði fyrir landsmenn.

Gert er ráð fyrir því að skipuð verði þrjú ráð, þ.e. samgönguráð, byggðamálaráð og húsnæðis- og skipulagsráð sem geri tillögur til ráðherra að stefnu og aðgerðaáætlunum, hvert á sínu sviði, að fengnum áherslum ráðherra. Hvert þessara ráða verði skipað þremur fulltrúum, tveimur án tilnefningar og einum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þannig verði tryggt skýrt umboð ráðanna sem og að sjónarmið sveitarfélaganna komi fram við undirbúning stefnumörkunarinnar.

Mikil áhersla er lögð á mikilvægi þess að ítarlegt samráð fari fram við undirbúning stefnanna áður en þær eru lagðar fram á Alþingi. Fram til þessa hefur verið víðtækt samráð við gerð landsskipulagsstefnu og samgönguáætlunar svo dæmi séu tekin og verður það áfram. Í stað árlegrar skýrslugjafar til Alþingis er gert ráð fyrir því að ráðherra upplýsi bæði Alþingi og almenning um framgang áætlana með reglubundnum og aðgengilegum hætti. Liggur beint við að það verði gert í gegnum rafræna upplýsingagátt ráðuneytisins, svokallaðan Vegvísi á vegvisir.is, þar sem birtar eru uppfærðar lykilupplýsingar um m.a. stöðu mælikvarða, áætlana og framvindu aðgerða í einstökum landshlutum. Upplýsingar um niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka miðað við fjárveitingar munu jafnframt áfram birtast í ársskýrslu ráðherra sem lögð er fram samkvæmt ákvæðum laga um opinber fjármál. Brýnt er að framsetning áætlana verði samræmd og því verði horft til samspils og samhæfingar við aðrar áætlanir þar sem þær eru til staðar, svo sem aðgerðaáætlun um loftslagsmál og heilbrigðisstefnu. Loks verði sem fyrr gætt sérstaklega að samhæfingu við fjármálaáætlun og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem lagðar eru fram á grundvelli laga um opinber fjármál.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.