Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:00]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem þingflokkur Miðflokksins leggur fram og er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp þess efnis að lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds skuli breytt. Breytingin lúti að því að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins eins og hann kýs.

Þessi þingsályktunartillaga er nú flutt í þriðja sinn en var síðast lögð fram á 152. löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt.

Allir þeir sem skattskyldir eru á Íslandi, einstaklingar og lögaðilar, greiða sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins ohf. Útvarpsgjaldið, sem lagt er á við álagningu opinberra gjalda ár hvert, er lagt á þá einstaklinga og lögaðila sem bera sjálfstæða skattskyldu aðra en dánarbú, þrotabú og þá lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 4. gr. laga um tekjuskatt. Það eru nokkrar aðrar undantekningar sem ég fer ekki yfir hér en koma fram í þingmálinu. Gjaldið nemur fastri fjárhæð sem er ákvörðuð með lögum. Nú er það 20.200 kr. og bætist við á hvern einstakling sem hefur náð 18 ára aldri fram til 67 ára aldurs og við hverja fyrirtækjakennitölu sem stofnuð er, þannig að í hvert skipti sem framtakssamur einstaklingur stofnar fyrirtæki þá detta 20.000 kr. í sjóðinn hjá Ríkisútvarpinu. Hér er um að ræða nefskatt sem enginn skattskyldur aðili kemst undan að greiða. Skiptir þá engu hvort hann getur notað fjölmiðlaþjónustu Ríkisútvarpsins, hvort hann sættir sig við hana eða hvort hann skilur hana yfirleitt.

Með þessari tillögu er lagt til að unnið verði að breytingum á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, sem fela í sér breytt fyrirkomulag við innheimtu útvarpsgjalds. Lagt er til að landsmenn hafi valfrelsi um ráðstöfun hluta þess gjalds. Þannig geti þeir með framlagi sínu tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins. Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum og gildir það um fréttaflutning sem dagskrárgerð. Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana.

Í 1. gr. laga um Ríkisútvarpið er tiltekið að markmið þeirra sé að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í samfélaginu með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er þannig falin framkvæmd þessarar stefnu stjórnvalda. Það sé þjóðarmiðill og skuli rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Þá skuli það leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Það er skoðun flutningsmanna þessarar tillögu að til þess að Ríkisútvarpið geti rækt þessa skyldu þurfi að vera rými fyrir aðra öfluga fjölmiðla á markaðinum. Hér er átt við fjölmiðla sem geti veitt Ríkisútvarpinu aðhald og um leið aukið fjölbreytileika þjóðfélagsumræðunnar og eflt frekar skilning almennings á henni. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/65/EB kemur fram að fjölmiðlalæsi snúist um að gera neytendum kleift að nýta sér fjölmiðla á öruggan og skilvirkan hátt. Áhrif fjölmiðla á samfélagið eru svo viðamikil að fjölmiðlalæsi neytenda er ein af grundvallarforsendum þess að þeir geti talist fullgildir og virkir borgarar í lýðræðisríki. Að veita einum ríkisreknum miðli lungann úr fjölmiðlastyrkjum hins opinbera vinnur gegn þessum markmiðum.

Undanfarið hafa birst margvíslegar upplýsingar um að stjórnendur Ríkisútvarpsins telji sig hafa sjálfdæmi um það hvernig staðið er að rekstri þess. Bæði Ríkisendurskoðun og fjölmiðlanefnd hafa ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við starfsemi Ríkisútvarpsins og framkvæmd á ýmsum lögbundnum skilyrðum sem gilda um rekstur stofnunarinnar. Hvað lögbundnar skyldur hennar varðar má jafnframt benda á að Ríkisútvarpið gegnir nú á dögum hvergi nærri sama öryggishlutverki og fyrr á tíð.

Nefskattur á borð við útvarpsgjald þekkist nú þegar í lögum um sóknargjöld. Þar er kveðið á um að þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög samkvæmt lögum um þau skuli eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti sem lagður er á samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Er það val skattgreiðenda til hvaða safnaðar gjaldið rennur. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að útfæra útvarpsgjaldið á svipaðan hátt, t.d. þannig að skattskyldur aðili tilgreini á skattframtali hverju sinni hvert hann vill beina hluta útvarpsgjaldsins.

Um árabil hefur verið rætt um að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og renna þannig styrkari stoðum undir frjálsa fjölmiðla. Augljóslega hefur slík útfærsla ekki hlotið brautargengi enn sem komið er. Telja því flutningsmenn tillögunnar rétt að fara þessa leið með farsæld frjálsrar fjölmiðlunar fyrir augum og tryggja þannig heilbrigðari og fjölbreyttari þjóðmálaumræðu í landinu.

Virðulegur forseti. Okkur er öllum ljóst í hvers lags yfirburðastöðu Ríkisútvarpið er gagnvart öðrum fjölmiðlum í landinu. Það hefur ítrekað verið rætt að það þurfi að gera bragarbót þar á. Ýmsar tillögur lágu fyrir í skýrslu frá árinu 2018 sem Björgvin Guðmundsson þáverandi ritstjóri, að mig minnir, fór fyrir, og þar komu fram sjónarmið sem vörðuðu til að mynda aðlaganir á tryggingagjaldi starfsmanna, virðisaukaskatt af áskriftar- og auglýsingatekjum fjölmiðla, skattlagningu erlendra risafyrirtækja sem hér sópa til sín stórum hluta auglýsingafjár og þar fram eftir götunum. En svo, eins og með margt annað hjá þessari ríkisstjórn, gerist ekki neitt og enn sitjum við nú í allsherjar- og menntamálanefnd og förum yfir sérstaka ákvörðun um það með hvaða hætti stutt skuli við einkarekna fjölmiðla og sú ákvörðun hefur hingað til verið tekin eitt ár í senn, í stað þess að ráðast að rótum vandans og minnka að nokkru marki þá yfirburðastöðu sem Ríkisútvarpið hefur á þessum markaði og byggja inn hvata sem geta stutt við þá einkareknu miðla sem hér eru starfandi, flestir, því miður, á mjög veikum grunni rekstrarlega.

Ég held að hér gefist tækifæri til þess að innleiða þennan hvata sem góður fréttaflutningur af málefnum líðandi stundar er undirorpinn og þetta er líka sanngirnismál í mínum huga. Útvarpsgjaldið er lögþvinguð aðgerð; 20.200 kr. á hverju ári á hverja kennitölu sem er skattskyld. Þetta safnast saman og það að leggja hér til að þriðjungi þessa gjalds verði ráðstafað með frjálsum hætti til þess fjölmiðils sem viðkomandi kýs að gera, þykir okkur flutningsmönnum málsins hófleg nálgun á það að styðja við einkarekna fjölmiðla í landinu. Ég ítreka að við flutningsmenn málsins, ég sem hér stend og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, leggjum fram þessa tillögu sem hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp þess efnis að lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds skuli breytt. Breytingin lúti að því að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins eins og hann kýs.

Að aflokinni þessari umræðu legg ég til að þetta mál gangi til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til meðferðar þar.