Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:11]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Starfsumhverfi fjölmiðla er einmitt mjög áhugavert líkt og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni hér áðan, m.a. vegna breytinga á auglýsingatekjum og fleira. En mig langar aðeins að varpa ljósi á og beina umræðu minni að stöðu fjölmiðla á landsbyggðinni. Þeir eiga undir högg að sækja eins og við höfum séð upp á síðkastið, líkt og reyndar aðrir fjölmiðlar. Fjölmiðillinn N4, sem komst nú aldeilis í fréttirnar fyrr í vetur, er ágætisdæmi þar sem búið er að óska eftir gjaldþrotaskiptum hans í ljósi rekstursins og rekstrargrundvallarins. Fólk vill vissulega sjá fréttir og umfjöllun úr sínum heimabæ og það er mikilvægt að við flytjum fréttir alls staðar af landinu. Íbúar á landsbyggðinni hafa ítrekað bent á að umfjöllun RÚV um landsbyggðina hafi minnkað töluvert. Það kemur því til álita hvort fýsilegt sé að endurskoða úthlutunarreglur og fjölmiðlastyrk með auknum stuðningi við landsbyggðarfjölmiðla að leiðarljósi. Því spyr ég hv. þingmann: (Forseti hringir.) Telur hann að þessi breyting sem hann leggur hér til sé til þess fallin að auka stuðning við fjölmiðla á landsbyggðinni?