Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:18]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að það séu allir að nálgast og detta inn á sama stað í þessari umræðu. Ég hef svo sem skynjað það. Hér er rætt um verkleysi ríkisstjórnarinnar og ég get tekið heils hugar undir það sem hv. þingmaður kom inn á, að mikið er talað um það sem gera þarf en það gerist minna og minna verður úr efndum heldur en maður myndi vilja. Eitt af því sem t.d. hefur verið boðað af hálfu hæstv. menningarráðherra er að það fari fram einhvers konar heildarendurskoðun á umhverfinu öllu, en það bólar auðvitað ekkert á því. Ég get bara upplýst það hér og fer kannski betur yfir það á eftir að ég hef velt því fyrir mér hvers konar tillögu maður gæti komið með til að reyna að efla þennan geira. Eina skynsamlega tillagan sem mér hefur dottið í hug er nákvæmlega sú að þessi vinna sem nokkrum sinnum hefur verið farið í og núna síðast fyrir fimm eða sex árum síðan, að skoða þetta allt saman heildstætt; stöðu Ríkisútvarpsins, allt sem lýtur að því, starfsemi þess, auglýsingamarkaðinn, hver staða einkarekinna miðla er, skattumhverfið, streymisveitur og allt þetta, sé eina leiðin fram undan áður en við förum í svona sértækar tillögur. (Forseti hringir.) Mér heyrðist það svona á hv. þingmanni að hann væri kannski sammála því að það gæti verið farsælasta lausnin.