Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:23]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og fyrir að taka þetta atriði upp. Við erum að fjalla um þetta í allsherjar- og menntamálanefnd núna og ég hef lýst þessu sem árlegum krampakenndum viðbrögðum stjórnvalda við stöðunni. Ég sé fyrir mér, að þessu máli innleiddu og endurskoðun, hvort sem hún fer fram á grundvelli skýrslunnar frá 2018 þar sem voru ýmsar góðar tillögur lagðar fram, þá færum við út úr því fyrirkomulagi, jafn ósanngjarnt og ógegnsætt og það er, sem sagt þessum sértæku árlegu styrkjum sem eru, eins og ég hef kallað það, krampakennd viðbrögð til að bregðast við óbærilegri rekstrarstöðu einkamiðlanna. Aðeins varðandi atriðið að stærri miðlar fái meira heldur en minni miðlarnir. Ég held að þeir séu gegnumgangandi að fá, alla vega þessir stærstu, hlutfallslega minna gagnvart ritstjórnarkostnaði sínum þannig að margra hluta vegna eru úthlutunarreglurnar flóknar og ósanngjarnar. Það væri gott ef okkur tekst að innleiða breytingar á rekstrarumhverfinu, ekki bara er snúa að sköttum og gjöldum heldur líka t.d. þessu regluverksumhverfi sem er íþyngjandi. Þeir sem því þurfa að sinna á hverjum miðli fyrir sig gera ekkert annað á meðan. Þannig að ég held að þetta gæti orðið býsna vænlegt skref til að stýra stuðningi til þeirra sem fólk vill styðja við, hvort sem það eru héraðsfréttamiðlar, fótbolti.is eða knattspyrna.is eða hvað þeir heita nú allir þessir ágætu íþróttamiðlar. Það er bara útfærsluatriði hvernig sá skurðpunktur verður tekinn. En ég held að prinsippákvörðunin geti líka ýtt á að þessi heildarendurskoðun eigi sér stað sem beinlínis verður að eiga sér stað. Og aftur, bara til að ítreka svar við spurningunni: Ég sé fyrir mér að þessir (Forseti hringir.) árlegu sértæku styrkir fasist út að þessu máli samþykktu og með endurskoðuninni sem þarf að eiga sér stað.