Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:37]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að eitt árið verði 12. þm. Norðvest. hér í pontu, en ekki alveg strax. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir ræðuna og ágætt innlegg í þetta. Ég held að nálgunin sé á pari hvað umræðu okkar tveggja varðar; þetta er allt púsl í stærri mynd hvað það varðar að rétta af rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Varðandi orð hv. þingmanns, að það megi ekki vera forsenda í þessari umræðu að einkareknu miðlarnir verði sterkari með því að RÚV verði veikt, þá fer það ekkert á milli mála með hvaða hætti fyrirsvarsmenn einkareknu miðlanna lýsa áhrifum Ríkisútvarpsins í umfangi þess nú á markaðnum og það á ekki bara við áhrifin á auglýsingamarkað, eins og ég skil það. Það á við áhrif á efnisöflun, afl ritstjórnar og þar fram eftir götunum.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann, sem kom einmitt inn á það í ræðu sinni að umfang Ríkisútvarpsins þyrfti ekki að vera óbreytt um aldur og ævi, hvernig hv. þingmaður sæi fyrir sér umfang Ríkisútvarpsins hvað núverandi stöðu varðar annars vegar og hins vegar ef við værum að setja á laggirnar ríkismiðil í dag sem ætti að sinna þeim verkefnum sem útskrifuð eru í lögum um Ríkisútvarpið. Hvar væri það helst sem áherslur Ríkisútvarpsins myndu breytast? Nú veit ég að hv. þingmaður þekkir fyrirtækið vel.