Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:42]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Í þessari umræðu allri um auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins og áhrifin sem Ríkisútvarpið hefur á auglýsingamarkaðinn í heild sinni, þá lögðum við í þingflokki Miðflokksins fram á síðasta kjörtímabili hugmynd sem er ekki hluti af þessari þingsályktunartillögu en væri kannski ástæða til að bæta inn í þetta púsl, þess efnis að á meðan ekki er tekin ákvörðun um að taka Ríkisútvarpið að hluta eða öllu leyti af auglýsingamarkaði, þá verði auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins stýrt inn í samkeppnissjóð sem væri ætlaður til stuðnings við innlenda dagskrárgerð og einkaaðilar og í rauninni allir, RÚV sömuleiðis, væru hluti af. Þekkjandi fjölmiðlaumhverfið jafn vel og hv. þingmaður gerir, án þess að ég geri kröfu um djúpa greiningu á þessari hugmynd, teldi hann gagn af því að fá þetta púsl inn í myndina; að þær auglýsingatekjur sem Ríkisútvarpið hefur, annaðhvort í óbreyttu formi eða eitthvað minni, gætu orðið til gagns fyrir innlenda dagskrárgerð, hverrar gerðar sem hún væri, ef þeim fjármunum væri stýrt inn í samkeppnissjóð sem aðilar gætu sótt í?