Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vildi aðeins taka þátt í umræðum um þessa athyglisverðu þingsályktunartillögu sem hér er verið að ræða í dag sem lýtur að þeirri breytingu að greiðendum útvarpsgjalds sé heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins eins og hann kýs. Þetta er áhugaverð nálgun og hér hefur mikið verið rætt á síðustu árum um að fyrirferð RÚV, Ríkisútvarpsins, á fjölmiðlamarkaði á Íslandi sé of mikil og svo höfum við náttúrlega verið að ræða þessar breytingar sem hafa orðið á rekstraraðstæðum fjölmiðla á Íslandi á síðustu árum. Erlendir miðlar, sérstaklega samfélagsmiðlar, eru að taka mjög stóran hluta af öllu fjármagni til sín og lítur ekki annað út fyrr en að það muni halda áfram á næstu árum. Ég vildi líka rétt koma inn á það sem kemur fram í þingsályktunartillögunni, en þar er bent á að í 1. gr. laga um Ríkisútvarpið er tiltekið að markmið þeirra laga sé að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í samfélaginu með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er þannig falin framkvæmd þessarar stefnu stjórnvalda. Og það er nú kannski ástæðan fyrir því að maður stígur hér upp því hér gefst tækifæri til að koma inn á það sem mér fannst vera mjög mikilvægt, þ.e. gildi gömlu svæðisútvarpanna á landsbyggðinni. Satt að segja fannst mér Ríkisútvarpið fara svolítið niður þegar þau voru lögð af á sínum tíma. Þau voru vítt um landið; á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, á Suðurlandi á tímabili, nú man ég ekki hvort það var í Borgarnesi. Það var líka í Borgarnesi. Mér þótti það gríðarlega mikilvæg umræða sem þarna fór fram. Það voru fréttir úr nærsamfélaginu og svo bara almenn umræða um svæðin þannig að þessi lýðræðislega umræða fór mikið fram í þessum svæðisútvörpum. Eins og fyrir norðan þar sem maður fylgdist vel með, þar voru í útvarpi viðtöl við fólk í nærsamfélaginu um málefni svæðisins. Þetta var allt lagt af í einhverjum sparnaðaraðgerðunum RÚV fyrir tíu, fimmtán árum eftir efnahagshrunið, eftir að það gekk yfir heiminn, væntanlega upp úr 2008. Þarna fór nú svolítið, fannst mér, svona hjartað í Ríkisútvarpinu. Þarna fannst mér algjörlega tilgangur Ríkisútvarpsins sýna sig, hver hann ætti að vera. Það var lýðræðisleg umræða í nærsamfélaginu sem við náum ekki og höfum aldrei náð almennilega síðan þá. Þá fór nú aðeins að draga úr stuðningi mínum við RÚV, þegar menn misstu þetta út. Og síðan hefur þetta náttúrlega þróast með þeim hætti — jú, það var kannski einhver sparnaðaraðgerð þarna sem fór mest í að leggja þessar svæðisstöðvar af, en svo er nú ekki annað hægt að segja en að styrkur Ríkisútvarpsins hafi aldeilis vaxið, sérstaklega á síðustu árum með þessum nefsköttum, auglýsingatekjum og öðru. Nú er þetta um 8 milljarða rekstur.

Ég vildi bara fyrst og fremst koma inn á þennan punkt um hið lýðræðislega hlutverk. Það væri áhugavert í þessari umræðu, þar sem hv. þm. Sigmar Guðmundsson þekkir nú vel til hjá RÚV, gamall starfsmaður þar, að þessi umræða kæmi líka fram því mér fannst allt of lítið gert úr þessu. Þetta er nú ekki það dýrasta sem hægt er að vinna með, þessi stúdíó eru enn þá til víða, held ég, og ekki það dýrt að koma inn með þetta með einhverjum hætti. Ég vildi bara rétt koma inn á þetta. Mér finnst þetta skemmtileg og áhugaverð tillaga, athyglisverð tillaga og vonandi verður bara góð umræða um hana og framgangur í nefndarvinnunni og vonandi náum við einhverri niðurstöðu með vorinu. En ég þakka kærlega fyrir umræðuna um einmitt þennan þátt.