Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[12:57]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að gera mig út sem sérfræðing í þessum málum, þetta hefur kannski ekki verið alveg á minni málefnaskrá hér í þinginu. En ég hef fylgst almennt með umræðunni, því sem er að gerast í Evrópu og maður les þetta í erlendum miðlum, kannski sérstaklega af því að það hefur ekkert verið allt of mikil efnisleg umræða á Íslandi um þessi mál. En þetta eru grundvallarmál. Streymisveiturnar, hvort sem það eru Disney+, Netflix, HBO eða hverjar þær eru sem eru komnar hingað eða stefna hingað — þetta er erfið samkeppni ef hún fer ekki fram í eðlilegri samkeppni við miðla innan lands sem eru á sambærilegum markaði, efnisveitur á Íslandi og slíkt. Þannig að þetta er gríðarlega stórt og mikið atriði. Eins og ég kom inn á áðan eru auglýsingatekjurnar farnar að fara mikið, eins og við erum að sjá núna, til erlendra miðla eins og Facebook og Instagram, það er þessi ótrúlega breyting á örskömmum tíma. Við erum búin að vera með umræðu á Íslandi núna í einhver ár um þetta en málið verður erfiðara og erfiðara. Ég held að það væri fengur í því núna að þingið færi að huga að því einmitt að skoða hvað Danmörk og einhver fleiri Evrópuríki hafa verið að gera í sínum málum til að standast áskoranir sem snúa að þessu á heimavelli. Það tengist svolítið almennt löggjöf um alþjóðafyrirtæki og hvernig menn ætli að ná skattheimtu í gegnum það og jafna leikinn. Ég er samt þeirrar skoðunar, þótt ég sé ekki sérfræðingur á sviðinu eða hafi legið yfir þessu mikið, varðandi það sem er að gerast núna, og bara á síðasta ári var töluvert að gerast innan Evrópusambandsins varðandi þessi alþjóðlegu fyrirtæki og internetið og samfélagsmiðlana og síðan aftur streymisveiturnar og þetta umhverfi, að eðlilegast sé að við lítum þangað, hvernig menn fara með þessi mál þar. Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt mál.