Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[13:02]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Lýðræðislegt hlutverk, eins og ég kom inn á áðan, og þessi 1. gr. laga um Ríkisútvarpið sem snýr að því eru gríðarlega mikilvæg í málinu. Eins og hv. þingmaður kemur inn á þá er flækjustigið kannski meira í unnu efni og þá er kannski frekar verið að tala um sjónvarp. Ég var kannski meira að tala um svæðisútvarpið út frá þáttunum sem voru í útvarpi þar sem voru kannski fimm mínútur af fréttum og síðan 25 mínútur af umræðum um tvö eða þrjú mál, jafnvel bara eitt eða tvö. Þá fékk samfélagið mikla hlustun og almenningur var meðvitaður um hvað væri í gangi á svæðinu. Hlustunin var gríðarleg. Það væri forvitnilegt að skoða á nýjan leik en tölurnar voru mjög háar yfir þá sem hlustuðu á útvarpið. Útvarpsefnið var ekki mikið unnið og mjög einfalt. Eins og hv. þingmaður kemur inn á þá má spyrja hvort við séum kannski farin að eyða svo miklum fjármunum í að vinna efnið svo mikið að allt er orðið svo dýrt. Það er svolítið önnur frétt sem birtist kannski í sjónvarpi í 60 eða 120 sekúndur og er unnin tæknilega yfir daginn, allt sett saman og klippt og annað, miðað við opinn hljóðnema í útvarpi sem gengur og fær sitt pláss í dagskránni milli hálfsex og sex fyrir kvöldfréttir útvarpsins, eins og var á tímabili — ég held að það hafi ekki verið mjög dýrt form. Þetta er munurinn, og svo eru þessi sjónarmið sem komu fram í umræðunni um að hafa þetta staðbundið fyrir kannski 30, 40, 50 svæði, eins og fyrir norðan og á tímabili var Austurland sameiginlega með Norðurlandi — kannski var best þegar Norðurland var sér og Austurland líka, vegna þess að þessi sjónarmið eru mjög mismunandi. Hins vegar er gott fyrir landsbyggðina að tengjast saman til að efla þekkingu á ekki bara nærsamfélaginu heldur aðeins út fyrir það. Ég held að það væri mjög áhugavert að skoða hversu dýrt þetta er og hversu hátt hlutfall af 8 milljarða rekstri Ríkisútvarpsins er í dag tengt landsbyggðinni, miðað við hvert hlutfallið var fyrir kannski 10–15 árum af rekstrinum.