Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[13:46]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Ég einfaldlega geri ekki ráð fyrir því að sveitarfélag verði með neinum hætti fjármögnunaraðili í viðkomandi samgöngufélagi. Ég held við ættum að hafa það alveg á hreinu að við erum ekki að leggja byrðar á sveitarfélög í þessum efnum þó að þau standi með einhverjum hætti að því að leita að áhugasömum aðila til að fjárfesta í slíku verkefni. Ég held að það sé grundvallarþáttur. Að öðru leyti þá ætla ég ekki að halda í hendina á sveitarfélögunum svo þau fari sér ekki að voða. Grundvallarþátturinn er sá að það munu ekki allir vegir hafa þá umferð að hægt sé að fara í slíka flýtingu. Það er raunverulega stóra svarið í þessu öllu. Við vitum að á ákveðnum vegum á landinu hefur sprungið út umferð ferðamanna og bílaleigubíla eða hvað við köllum þá. Það er við þessa vegi sem er orðið algjörlega óboðlegt að búa í sumum sveitum. Umferð ferðamanna hefur skapað slíka árekstra að það er nánast óbúandi við þessa vegi í svo mörgum tilfellum. Það munu ekki allir vegir komast í gegnum það nálarauga þó að þeir séu komnir á samgönguáætlun og geti haft réttinn til að flýta framkvæmdum. Þannig að rekstrarforsendurnar eru grundvallarsvarið á bak við það hvort menn fari í gerð samgöngufélags og komist í samfélagsvegaprógramm sem ég vil kalla svo. Hversu fýsileg er fjárfestingin líka fyrir þá sem munu lána fjármuni til þess að byggja slíka vegi og fjárfesta í hlutafé í slíkum samgöngufélögum sem á að stofna um hverja eina framkvæmd fyrir sig?