Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[13:49]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það finnast fjárfestar og áhugasamir aðilar og hvers vegna ættu aðilar í ferðaþjónustu ekki að sjá sér hag í því að bæta aðgengi að mannvirkjum í ferðaþjónustu, ef ég nefni eitt dæmi, eða auka umferð um tiltekið svæði sem myndi nýta fjárfestingar þeirra betur? Ég er ekki í nokkrum vafa um að slíkir fjárfestar eru til. Það sem ég hef aftur á móti orðið var við eftir að ég lagði þessa hugmynd fram í haust og á þeim fundum sem ég hef haldið um þetta mál, að þar hafa m.a. komið fjárfestar sem eru af þeirri gerðinni að þeir eru innviðafjárfestar til mjög langs tíma, eru með fjármagn sem þeir þurfa að koma í ávöxtun með tryggum hætti en gera ekki kröfur um hámarksávöxtun fjár til skemmri tíma. Ég held að það sé lykilatriði. Ég nefndi sérstaklega í þessu sambandi þau lagaákvæði sem við höfum t.d. um tekjumörk veitufélaga, þau mætti með ákveðnum hætti spegla yfir á samgöngufélög ef menn hafa áhyggjur af ávöxtun þeirra sem leggja fjármagn til þeirra. En stóra málið er þetta: Ég trúi því að sjálfsögðu að þetta geti orðið áhugaverður fjárfestingarkostur, líka fyrir fyrirtæki í viðkomandi byggðarlagi sem hafa mikinn kostnað af því að nota ónýta vegi.