Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[14:03]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Ég vil taka utan um nokkra þætti í mínu fyrra andsvari við hv. þingmann með því að segja að mér finnst það vera góð samantekt hjá hv. þingmanni þegar hann ræðir um 15 ára áætlunina. En hvers vegna ætti þingið að samþykkja veg inn á 15 ára áætlun og meina ekkert með því? Því miður höfum við séð þetta of oft. Við höfum séð íbúa þessa lands bíða eftir samgöngubótum árum og áratugum saman en við þingmenn komum út í hérað og segjum: Ja, þetta er nú samt á 15 ára áætlun.

Við skulum bara segja þetta eins og það er. Ég er ekki síst með þessu máli að reyna að auka aga í þessu, þannig að fólk hafi einhvern fyrirsjáanleika og tímalínu um hvenær raunverulegar samgöngubætur eiga að koma. Ég er að veita samfélaginu, og það liggur í orðinu samfélagsvegir, vald yfir sínum málum svo það geti leyst úr þeim, en ekki hleypa ríkisvaldinu frá því að bera ábyrgð á því að samgöngubætur eigi að koma í viðkomandi hérað.

Það er meginefni þessa máls og mér finnst eðlilegt, eins og hv. þingmaður nefnir í ræðu hér, að menn takist á við það og ræði í hv. umhverfis- og samgöngunefnd hvernig það verður síðan mátað ef nefndin kemst svo langt að afgreiða málið frá sér, sem ég bind að sjálfsögðu vonir við. Stóra málið er líka hitt, að við höfum haft þessa löggjöf um samvinnuverkefni í framkvæmdum. Við höfum gert höfuðborgarsáttmálann, sem er allt önnur umræða sem ég vil skilja frá þessu þingmáli, en við höfum ekki fært samfélögunum úti á landi nein sambærileg úrræði og þar er þörfin ekki síður mikil. Ef við hugsum bara um vöxt og viðgang dreifðra byggða á Íslandi er grundvallarþáttur að koma innviðum þeirra samfélaga í lag. Síðan þurfum við ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því hvort þessar byggðir spjari sig ef við höldum síðan af gæfu um hagsmuni atvinnuvega sem þessar byggðir byggja sína afkomu á.