Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.

485. mál
[14:31]
Horfa

Flm. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil bara við lok þessarar umræðu, framlagningu og 1. umr. um þetta frumvarp, sem við nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytjum, þakka fyrir ágætar umræður sem hér hafa verið og efnismiklar. Ég vil taka undir með hv. þm. Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem flutti sína ræðu um málið rétt áðan, að við verðum að leita nýrra leiða til að bæta og efla okkar innviði og við getum ekki alltaf horft á ríkiskassann í þeim efnum. Við höfum önnur tæki, við höfum önnur úrræði en bara þau. Sannarlega er það sem rétt sem hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu, þetta er líka svar okkar landsbyggðarmanna við höfuðborgarsáttmálanum. Jafn mikilvægur og hann er og mikilvægt að greiða úr því að komast með hraðari hætti inn í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir á þessu svæði, þá er það líka nauðsynlegt úti um landið. Við erum að færa hér vald og tæki og tækifæri til landsbyggðarmanna til að hafa áhrif á nærsamfélag sitt. Hverjir ættu að vera betur til þess fallnir að leggja slíkar áherslur sem við erum að ræða hér en einmitt heimamenn sjálfir, sveitarfélögin? Við lærðum það í ljósleiðaraverkefninu Ísland ljóstengt, sem við leyfðum okkur að kalla svo, að um leið og við vorum með réttu hvatana, réttu tækin til að færa heimamönnum til að sækja fram, þá var byggt upp fyrirmyndarfjarskiptakerfi á stuttum tíma. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að nefna þetta hér því að ég tók þátt í þeirri vinnu. Ég horfði á fyrstu tölur um að það myndi líklega kosta, uppreiknað í dag, um 12–14 milljarða að leggja ljósleiðara í dreifðar byggðir landsins. Við beittum síðan tækjum, við beittum hvötum og við byggðum þetta sama kerfi fyrir um 8 milljarða kr. Það var sannarlega með þátttöku íbúa, sannarlega með þátttöku og oft og tíðum íþyngjandi fjárfestingum sveitarfélaga sem við gerðum það.

Við erum ekki að horfa til þess með sama hætti með þetta mál hér. Við erum að reyna að segja með mjög skýrum hætti: Við höldum sveitarfélögunum fyrir utan fjárhagslega ábyrgð á þessum verkefnum. En við sáum einfaldlega þegar við færðum réttu tækin, réttu tólin í hendur heimamanna að þá leituðu menn lausna sem voru ódýrari og skilvirkari en hið stóra ríkisvald þarf oft að beita og getur beitt.

Ég bind því vonir við það, virðulegur forseti, að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fái umsagnir og geti haft góða umræðu um þetta mál og að við sjáum það mögulega síðan koma aftur út úr nefndinni. Ég geri mér ákveðnar vonir um það, kannski ekki miklar vonir, en við höfum sannarlega kveikt umræðuna. Við höfum kveikt umræðuna um það að það er hægt að leita annarra leiða til að sækja fram heldur en bara að horfa til ríkissjóðs. Við erum líka að segja að það sem við ályktum um hér á þinginu, um samgönguáætlun, að ríkisvaldið eigi að sannarlega að meina eitthvað með því. Við verðum líka að þora að horfast í augu við okkur sjálf og að við þurfum að bera ábyrgð á því alla leið sem við höfum stundum verið að gera hér inni á þingi þannig að það komist til framkvæmda, svo við segjum bara hlutina eins og þeir eru.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðu um þetta þingmál sem ég fékk að mæla fyrir í dag.