153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[14:50]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006, og þótt fyrr hefði verið. Meðflutningsmenn á frumvarpinu eru það mæta Sjálfstæðisfólk Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Guðrún Hafsteinsdóttir og Ásmundur Friðriksson.

Lög um starfsemi stjórnmálasamtaka voru samþykkt árið 2006 í kjölfar vinnu þverpólitískrar nefndar sem fjallaði um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Það sem var undir í þeirri vinnu var mikilvægt eftirlit með fjárreiðum stjórnmálaflokka, ákvörðun um hvort ætti að banna framlög frá fyrirtækjum í opinberri eigu, hvort og þá hvaða mörk ætti að setja við nafnlausum framlögum og fleira. Það var mikilvæg vinna og mikilvægt að setja þá umgjörð og það er ekki ætlunin að hrófla við þeim reglum.

Með lögunum frá 2006 var fjármögnun stjórnmálaflokka takmörkuð verulega en í greinargerð með frumvarpi að lögunum kom fram að samhliða þeirri breytingu væri brýnt að hækka verulega framlag úr ríkissjóði til stjórnmálastarfsemi. Þegar ég hóf undirbúning við gerð þessa frumvarps hafði ég fyrir fram þá skoðun að það ætti að afnema ríkisstyrki til stjórnmálaflokka hérlendis. Undirbúningsvinnan fékk mig síðan til að efast um að rétt væri að stíga slíkt skref til fulls. Í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við veitir hið opinbera stjórnmálaflokkum stuðning þótt einhver bindi þau ákveðnum skilyrðum um ráðstöfun. Þetta verður því okkar tillaga til að koma til móts við fleiri sjónarmið, a.m.k. að sinni.

Niðurstaðan er sem sagt sú að leggja til að ríkið veiti stjórnmálaflokkum ákveðinn en örlítið minni stuðning með hliðsjón af lýðræðishlutverki stjórnmálaflokka og hlutverki þeirra í þjóðmálaumræðu sem og hliðsjón af sambærilegum framlögum í nágrannalöndum okkar. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpi til laganna frá 2006 þá er mikilvægt að fjárstyrkur af hendi hins opinbera trufli ekki sjálfstæði stjórnmálaflokka, en það er einmitt hvatinn að því að ég lagði af stað í þessa vegferð. Frá setningu laganna frá 2006 hafa opinber framlög til stjórnmálaflokka margfaldast og eru nú helsta tekjulind þeirra. Þessi fjárframlög koma til viðbótar við framlög til stjórnmálaflokka í formi aðstoðarmanna og starfsmanna þingflokka samkvæmt ákvörðun á fjárlögum, framlög sem voru hækkuð verulega á árinu 2018 en að vísu lækkuð lítillega nú á dögum. Eins og frumvarpinu var ætlað að gera breytti það starfsumgjörð stjórnmálaflokka hérlendis verulega en með síhækkandi opinberum framlögum samhliða takmörkun á tekjuöflun stjórnmálaflokka hafa flokkarnir í raun verið gerðir að ríkisstofnunum.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á fyrrnefndum lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, ákvæðum sem varða framlög til stjórnmálastarfsemi og tekjuöflun þeirra. Breytingarnar snúa að því að lækka lítillega styrk hins opinbera til stjórnmálaflokka og miða að því að auka sjálfstæði þeirra og óhæði gagnvart hinu opinbera. Það hversu háðir ríkisframlögum stjórnmálaflokkar eru orðnir hefur að mati okkar flutningsmanna frumvarpsins dregið úr möguleikum stjórnmálaflokka til að sinna hlutverki sínu þvert á markmið laganna. Samhliða þessu er mikilvægt að auka möguleika stjórnmálaflokka á sjálfstæðri tekjuöflun og eru því lagðar til breytingar sem miða að því. Eftir sem áður verður stjórnmálaflokkum þó sniðinn þröngur stakkur við móttöku framlaga og áfram verður auðvitað skylt að veita upplýsingar um öll fjárframlög til stjórnmálaflokka.

Þá leggjum við til að lágmarksatkvæðafjöldi stjórnmálasamtaka sem geti fengið úthlutað fé úr ríkissjóði verði hækkaður úr 2,5% í 4%. Þar vegast á sjónarmið annars vegar um að mikilvægt sé að undanskilja ekki sjálfkrafa flokka sem hafa ekki náð manni kjörnum á Alþingi í þágu lýðræðis og almennra skoðanaskipta og hins vegar að hlutfallstalan hvetji ekki fólk til framboðs vegna möguleikans á fjáröflun. Að mati okkar er það ólýðræðislegt að úthlutað háum fjármunum skattgreiðenda í þágu stjórnmálastarfsemi og hugmyndafræði sem þeir hafa hafnað í lýðræðislegum kosningum. Á móti er lagt til að stjórnmálasamtök sem ekki uppfylla skilyrði laganna um framlög úr ríkissjóði hafi enn rýmri heimildir til sjálfstæðrar tekjuöflunar. Rökin að baki þessu eru þau að þar sem slík samtök þiggja ekki framlög frá hinu opinbera, auk þess sem þau fara ekki með formlegt vald, þá teljum við ekki ástæðu til þess að setja sjálfstæðri tekjuöflun eins miklar skorður.

Það er eindregið mat flutningsmanna þessa frumvarps að sú þróun sem hefur orðið hér á landi vegna hárra framlag hins opinbera til stjórnmálaflokka dragi úr eiginlegu stjórnmálastarfi flokka og tengslum þeirra við flokksmenn sína og við atvinnulífið, enda þurfa flokkarnir sífellt minna á þeim að halda í öruggum faðmi hins opinbera. Grundvöllur þess að stjórnmálaflokkar séu hornsteinn lýðræðis í landinu er sá að þar fari fram virk starfsemi og þjóðmálaumræða en ríkisstyrkirnir hafa dregið úr hvata flokkanna til að sinna því hlutverki. Það er öfugþróun. Stjórnmálaflokkar eru bara skipulögð lýðræðisleg samtök fólksins sem þá mynda. Í framkvæmd hefur fjárstyrkur hins opinbera því hamlað starfsemi og sjálfstæði stjórnmálaflokka sem gengur þvert á upphaflegt markmið með setningu laganna. Þá hefur fjáraustur hins opinbera til stjórnmálaflokka síst dregið úr umfangsmikilli kosningabaráttu en eitt af markmiðum með lögunum frá 2006 var að freista þess að draga úr kostnaði við kosningabaráttu. Í dag er nefnilega miklum fjármunum skattgreiðenda varið í auglýsingaherferðir stjórnmálaflokka.

Ég ítreka það að á engan hátt er ætlunin með þessu frumvarpi að hrófla við reglum sem hafa verið settar til að berjast gegn spillingu í tengslum við fjármögnun stjórnmálaflokka og kosningabaráttu. Þetta eru m.a. reglur um gagnsæi fjárframlaga, um bókhalds- og reikningsskyldu og um bann við leynilegum fjárframlögum.

Að lokum hlakka ég til að heyra gagnlegar ábendingar og athugasemdir við málið og ræða það hér við þingmenn og legg til að málið gangi að lokinni 1. umr. til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.