Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[14:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir framsöguna á þessu frumvarpi. Það er ýmislegt sem ég velti fyrir mér í þeim efnum. Stjórnmálaflokkurinn sem hún situr í og er talsmaður fyrir hér nýtur algerrar sérstöðu meðal íslenskra stjórnmálaflokka hvað lýtur að því að safna að sér auð fram hjá þessum ríkisstyrkjum. Hann er hagsmunagæslustjórnmálaflokkur, sá sem er búinn að koma sér upp miklum eignum og öðru slíku sem hann leigir áfram fyrir fullt af peningum og það síðasta var að selja núna, skilst mér, byggingarrétt á Valhallarlóð, hjá glæsihöllinni, fyrir um 1,5 milljarða. Hvernig er hægt að tala um jafnræði og sérstöðu þegar það í rauninni lítur svona út, a.m.k. fyrir mér? Við í Flokki fólksins vorum alfarið á móti því að tvöfalda nánast framlög til stjórnmálaflokka árið 2018 þegar allir sögðust vera á hausnum og vildum frekar að við eyddum þessum fjármunum í það að fæða fólkið sem stóð í löngum röðum og beið eftir mat. Ég velti fyrir mér þegar við erum að tala um lýðræði og jafnræði og jafnrétti stjórnmálaafla til að koma sér á framfæri við kjósendur sína og nú er t.d. í þessu frumvarpi hv. þingmanns verið að tala um leið að geta tekið við hærri framlögum frá fyrirtækjum: Hvaða stjórnmálaflokkur ætli hagnist mest á því í fyrsta lagi? Í öðru lagi: Af hverju þurrkum við þetta ekki bara allt saman út af kortinu og stöndum bara sjálfstæð, þessir blessuðu stjórnmálaflokkar, án fyrirtækjanna í landinu og án þess að íslenskur almenningur sé að halda okkur uppi? Og hvað lýtur að auglýsingatekjum, mætti ekki segja að það væri varla hægt að skila þeim á betri stað aftur út í samfélagið og inn í ríkissjóð en einmitt að við skulum nýta það fjármagn sem að okkur er rétt meira og minna í það að reyna að koma okkur áfram í þessu brjálæði sem auglýsingaherferðirnar eru í hverri kosningabaráttu?