Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:20]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ágætt að vera heiðarleg með hvað er raunhæft, hverju er hægt að ná samstöðu um í þessum efnum, af því að þegar svona kerfi er komið á er í raun lítill hvati fyrir þá sem njóta góðs af því til að hrófla alveg verulega mikið við því. En af því að ég kom ekkert rosalega mikið inn á hækkunina á lágmarkinu sem þarf til að fá peninga úr ríkissjóði, úr 2,5 upp í 4%, þá skoðaði ég söguna í kosningum frá því að lögin voru sett fyrst, þau tóku gildi 2007, um það hvaða flokkar eru að fá 2,5% og yfir og ekki með mann inni. Þar sá ég að þetta er oftast einn flokkur, stundum tveir. Það voru reyndar tveir flokkar árið 2013 þar sem það var alveg óvenjulega mikið í framboði. Þetta var svolítil eftirhrunsstemning þar sem flokkakerfið riðlaðist alveg og við sjáum að það eimir enn eftir af því á þingi í dag. En ef við förum upp í 4% þá er það þannig að enginn flokkur hefur fengið yfir 4% sem ekki hefur komið manni inn, öll árin nema núna síðast, 2021, sem er Sósíalistaflokkurinn, þannig að þetta myndi ekki breyta honum. En ef hann myndi kannski fara niður þá myndi hann detta þarna út, þannig að ég leyfi mér pínulítið að velta því fyrir mér hvort þetta sé ekki kannski svolítið eðlilegt ástand eða það ástand sem er fyrirséð og er í lögunum. Að þetta yrði kannski sirka einn flokkur í hverjum kosningum sem ekki nær inn en fær samt stuðning frá hinu opinbera til að reyna kannski betur næst, eins og gerðist t.d. með Flokk fólksins í kosningum.