Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:22]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Aftur varðandi þennan þátt málsins þá var það hreinlega svo að þegar ég lagði af stað í þessa vegferð við smíði þessa frumvarps þá þótti mér fullt tilefni til að takmarka framlagið við þá sem næðu manni á þing, af því að mér þykir það í grunninn vera ólýðræðislegt að sá sem tapar í rauninni lýðræðislegum kosningum hljóti jafnvel tugi eða hátt í hundruð milljóna í fjárframlög frá ríkinu fyrir það að gjalda afhroð í kosningum. En aftur varð lendingin sú að koma til móts við önnur sjónarmið og skera okkur ekki allt of mikið úr í samanburði við hin Norðurlöndin.

En ég velti hins vegar fyrir mér: Af hverju 2,5%? Af hverju er þá ekki bara 1%? Hvernig er þessi tala valin? Er hún miklu lýðræðislegri en 4%? Ég held að það sé rétt munað hjá mér að markið í sveitarstjórnarkosningum er 5%. Það var greinilega einhver umræða um þetta í nefndarvinnu við undirbúning frumvarpsins 2006 þar sem ákveðið var að halda því marki þar, sem sagt að hækka upp í 5% þar en halda þessum 2,5% hér. Þannig að þetta er svona ákveðin … og svo til samræmis við þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við.