Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:27]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vissulega þannig að eitt meginmarkmið laganna, eins og þau voru sett á sínum tíma, er að gera flokkana óháðari hagsmunaaðilum og að þessir ríkisstyrkir séu svona hlutlausari tekjulind. Ég veit ekki alveg, hef ekki kafað mjög djúpt ofan í það hvaða viðmið er notast við þegar fjallað er um hámark þess sem einstaklingar og lögaðilar geta borgað. Það er náttúrlega verið að leggja til að auka það verulega í þessu frumvarpi eða nokkuð, má segja. Út frá því að ég hef ekki skoðað alveg forsendurnar á sínum tíma eða greint þetta mjög mikið ofan í kjölinn þá ætla ég ekki að fullyrða um áhrif þessara breytinga en ég get kannski tekið undir þessar vangaveltur um að áhættan á hagsmunaárekstrum geti mögulega aukist. En þarna er náttúrlega mikilvægt að í þessum lögum á sínum tíma voru sett ákvæði um gagnsæi sem var ekki áður. Áður var fyrirkomulagið bara þannig að það var hægt að moka inn hverju sem er og það var bara milli flokksins og þess fyrirtækis eða einstaklings sem styrkti. Það þótti bara sjálfsagt mál og sjálfsagður réttur. Það hefur breyst mjög á undanförnum árum og er ágætissamstaða um það, alla vega það að gagnsæi er mjög mikilvægt í þessum efnum og ef þú ætlar að styrkja um ágætisupphæð þá þurfi það alla vega að koma fram. Þú getur ekki gert þetta bara eins og þetta sé nánast einhver leynilegur kosningarréttur, þetta sé algerlega á milli þín og þess sem þú styrkir.