Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:31]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var akkúrat meginþráðurinn í ræðu minni, þessar vangaveltur um hvort markmiðið sé að veita minni flokkum eða flokkum almennt ákveðna viðspyrnu sem eðli málsins samkvæmt nýtist þá minni flokkum betur, það sé einhvers konar markmið og jafnvel hugmyndafræði, að því gefnu að flokkar hafi náð ákveðnu lágmarki, að þeir fái t.d. ákveðinn stuðning, ef þeir eru nýir, við að komast á koppinn og svo bara eftir því hvaða árangri þeir ná með þeim styrk þá lifa þeir annaðhvort eða deyja. Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan þá hefur reynslan sýnt að það eru kannski einn eða tveir flokkur á hverju kjörtímabili sem eru í þeirri stöðu að vera utan þings en hafa hins vegar náð ákveðnum styrk í kosningum til að eiga rétt á þessum greiðslum úr ríkissjóði. Fyrir mitt leyti finnst mér það gott mál og finnst ekki ástæða til að vera að hrófla sérstaklega við því eins og það er núna. Mér finnst þessi 2,5% hafa gefið góða raun þó að það sé rétt sem hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir kom inn á, þetta er hærra í sveitarfélögum, er 5%. Það var hækkað sérstaklega í meðförum þingsins þegar lögin voru sett þannig að það má alveg koma með á móti það sjónarmið og þá spurningu af hverju það er ekki samræmi þarna á milli. Mér fannst á sínum tíma, það voru alls konar tölur settar inn, af lögskýringargögnum að ráða að það hafi kannski ekki verið mikil yfirlega yfir þeim tölum sem var svo komist að niðurstöðu um að notast við.