Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Virkilega ánægjulegt að eiga hér orðastað við hv. þingmann dag eftir dag. Mig langar að nefna nokkra punkta vegna þessa andsvars. Í fyrsta lagi, varðandi óhæðið, þá var tilefni þessarar lagasetningar árið 2006 m.a. tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins og var sérstaklega litið til þeirra við smíði þess frumvarps. Í þeim tilmælum var lögð áhersla á að hvorki fjárstyrkur einkaaðila né hins opinbera hefði áhrif á sjálfstæði stjórnmálaflokka. Það er svolítið áhugavert í þessu samhengi.

Varðandi orð hv. þingmanns um völd og breytingarmátt þingmanna, þá langar mig til að nefna að það hafa orðið miklar breytingar á íslensku atvinnulífi undanfarna áratugi. Við höfum auðvitað leyst atvinnulífið að svo rosalega miklu leyti úr viðjum leyfisveitinga og úthlutunarkerfa. Þau kerfi buðu upp á ákveðinn freistnivanda til að þrýsta á ákveðna hagsmuni og fyrirgreiðslur. Í dag hafa stjórnmálamenn, eins og við þekkjum hér — valdalausir þingmenn — miklu minni tækifæri til að mismuna fólki og fyrirtækjum. Mér sýnist ég ekki hafa mikið lengri tíma. Ég hefði gjarnan viljað ræða frekar við hv. þingmann áhrif þessa áhugaleysis á þátttöku í stjórnmálastarfi og hvort og þá hvernig samtenging sé þarna á milli við það kerfi sem ekki bara við heldur mjög mörg lönd í kringum okkur hafa smíðað.