Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:51]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu hér. Ég er enn þá svolítið upptekinn af þessu lýðræðislega hlutverki stjórnmálaflokka sem mér finnst skipta máli. Einu sinni var Samfylkingin alveg rosalega stór flokkur en svo varð hún allt í einu pínulítil. (Gripið fram í.) Þegar hún varð þessi litli flokkur var hún bara með rétt rúm 5%. Í skoðanakönnunum í aðdraganda þeirra kosninga var gefið í skyn að hún myndi hreinlega detta út af þingi. Nú er allt útlit fyrir að Samfylkingin verði, eins og hv. þingmaður segir, rosalega stór flokkur á nýjan leik og er það bara vel. Í kosningunum 2016 var Björt framtíð með 7,2%. Í kosningunum ári seinna fer hún niður í 1,6%. Viðreisn var með 10,5% árið 2016 en endar síðan í 6,7% árið 2017. Flokkar eru því að minnka og stækka eftir andanum í samfélaginu hverju sinni. Ég velti því fyrir mér hvort erindi stjórnmálaflokka sé lokið þótt eitthvað hafi gerst í samfélaginu sem gerir það að verkum að þeir tapa fylgi. Var erindi jafnaðarmanna næstum því lokið af því að þeir fengu svona lítið fylgi? Ef þeir hefðu farið niður fyrir 5% eða 4%, höfðu jafnaðarmenn þá bara ekkert að segja? Mér finnst þetta vera mergur málsins og það skiptir máli, eins og hv. þingmaður nefndi hér, (Forseti hringir.) að félagasamtök hafi ákveðnu hlutverki að gegna. Því spyr ég: Hefði hlutverki Samfylkingarinnar verið lokið ef kosningar hefðu farið eins og skoðanakannanir bentu til?