Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:54]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa mjög spennandi fyrirspurn. Það er erfitt að ætla sér að spekúlera hvað hefði gerst ef hv. þm. Logi Einarsson hefði ekki náð inn sem kjördæmakjörinn þingmaður í kosningunum 2016. Kannski hefðu þeir sem aðhylltust jafnaðarstefnuna þurft að finna sér aðrar lendur til að iðka sín stjórnmál, en það er ómögulegt að segja. Auðvitað er það svo að þegar stjórnmálaflokkur fær undir 5% atkvæða þá kjósa 95% þjóðarinnar eitthvað annað. Það hlýtur því að segja stjórnmálaflokkum eitthvað og einhver skilaboð hljóta að vera fólgin í því að fylgið verði ekki meira en það. Ég held að Samfylkingin hafi í framhaldi af þessari niðurstöðu 2016 farið í að skoða hvað það var sem hefði mátt betur fara í aðdraganda kosninganna. Það var auðvitað fjöldamargt, bæði hjá flokknum og eins í samfélaginu sjálfu, kannski ekki síst í þeim sérstöku aðstæðum sem voru í stjórnmálunum á þessum árum eins og við þekkjum. Það má líka geta þess að þessar kosningar 2016 og aftur 2017 voru stjórnmálaflokkunum, sem frjálsum félagasamtökum, þungar í skauti; að þurfa að fara í tvær alþingiskosningar ár eftir ár — það var dýrt. Því standa stjórnmálaflokkarnir í sjálfu sér ekkert sérstaklega vel eftir það ævintýri allt saman.