Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:56]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lífið getur verið hverfult og hlutverk eða líf stjórnmálaflokka líka. Ég nefndi hér slæma útkomu Samfylkingarinnar 2016 en svo tvöfaldaði hún fylgi sitt 2017. Því geta verið verulegar breytingar á milli kannana. Það voru sérstakrar aðstæður 2016 og svo í kosningum 2017 sem gerðu það að verkum að t.d. Björt framtíð datt út. Björt framtíð var þá sá stjórnmálaflokkur sem lagði líf sitt á vogarskálarnar en það var ekki metið við þau á þeim tímapunkti. Ég held að sá flokkur hafi átt ágætiserindi í íslenska pólitík á sínum tíma. Ég held t.d. líka, þrátt fyrir að ég sé ekki stuðningsmaður Sósíalistaflokksins, að það sé bara gott að hafa slík stjórnmálasamtök af því að þau hrista upp í okkur hinum.

Ég segi: Lýðræðið kostar. Ég held að ég geti verið sammála hv. þingmanni þegar hann nefnir hér að það megi hækka þessi mörk eitthvað sem hafa verið 550.000. En ég held og vil lýsa því yfir hér að ég er á móti þeirri breytingu að fara með þetta úr 2,5% upp í 4% eða fara með upphæðina úr 12 milljónum í 7 milljónir. Það mun skaða litlu stjórnmálaöflin allverulega.