Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:58]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er lentur í því að vera orðinn sérstakur talsmaður þessa frumvarps, sem er athyglisvert. [Hlátur í þingsal.] Það má auðvitað lengi deila um þetta og ég skil algerlega hvað hv. þingmaður er að fara með sínum ummælum. Auðvitað er það svo að við höfum gott af hressilegri umræðu í kringum litla flokka og það er vitaskuld mannanna verk að setja einhver mörk í þessum efnum.

Ég vil líka taka undir, þótt það sé kannski ekki beinlínis umræðuefni dagsins, að það var synd hvernig fór fyrir Bjartri framtíð eftir að hún lagði líf sitt svona hressilega á vogarskálarnar með því að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu 2017. Það var sorglegur endir á þeirri vegferð og það var áhugaverð ríkisstjórn. Þó svo að minn stjórnmálaflokkur hafi ekki átt aðild að henni þá voru margir spennandi hlutir í gangi á þeim tíma og áhugavert hefði verið að fylgjast með þeirri ríkisstjórn áfram, en svo fór sem fór og sá stjórnmálaflokkur hvarf af sjónarsviðinu. En það góða fólk sem þar var er enn til staðar og rödd þess heyrist nú oft. Án efa hafa einhver af því fundið sér farveg innan annarra stjórnmálaflokka.