Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[16:06]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Mér finnst svo gott að við séum að ræða þetta mál á breiðum grunni því eins og búið að koma fram hérna í dag og kemur sömuleiðis fram í greinargerðinni þá er þetta auðvitað bara viðleitni, þetta er bara dropi í hafið. En tilganginum er kannski sumpart náð þegar við erum farin að ræða hvort við séum fylgjandi þessu kerfi yfir höfuð, hverjir séu kostir þess og gallar, hverju við höfum áorkað eða ekki, þannig að ég er mjög ánægð með þessa umræðu í dag.

Varðandi hugleiðingar hv. þingmanns um hvort þetta geti virkað á Íslandi þá virkaði þetta á Íslandi í áratugi, það virkaði bara mjög vel. Þá störfuðu hér ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, það var alls ekki svo. Þá fékk gamli Sósíalistaflokkurinn einhvern tímann, að mig minnir, 30% í sveitarstjórnarkosningum, ég held að það hafi verið mesta fylgið sem þeir fengu. Það er því alls ekki svo að áður en við tókum upp þessa himinháu ríkisstyrki hafi aðrir flokkar ekki átt neina von til framgangs í íslenskum stjórnmálum.

Svo langar mig að ítreka það að við undirbúning þessa frumvarps fannst mér ég öðlast betri skilning á sjónarmiðum um aðkomu ríkisins, en ég er bara áfram hörð á þeirri skoðun, og þetta kemur fram í greinargerðinni, að aðkoman eigi að vera minni, hún eigi að vera miklu minni. Við eigum nefnilega sýna ráðdeild og hagkvæmni alls staðar.