Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[16:12]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það eru margir sem starfa í einhvers konar sjálfboðavinnu en það er allt öðruvísi að starfa í sjálfboðastarfi í hópi þar sem er mikil virkni og annað. Það er allt annað að vera í sjálfboðastarfi og vera sá sem er að leiða allt og bera á herðum sér eitthvert starf. Það er svolítið annað. Hvað varðar það að stjórnmálaflokkar hitti fólkið sitt þá get ég alveg sagt að það er virkilegur vilji til þess hjá stjórnmálaflokkum, held ég, ég get alla vega talað fyrir mig og minn flokk, að hitta fólk. Hitt er svo annað að tími er stundum af skornum skammti og mikið að gera í þinginu og alls konar sem tefur það og það hafa ekki allir flokkar byggt upp grasrótarstarf eins og t.d. Sjálfstæðisflokkurinn hefur getað gert, enda haft áratugi til þess. Það eru mjög margir á fyrstu skrefunum í því. Það gerir það oft flóknara, eðlilega, að fara að hitta fólk. Svo er líka bara spurning og má velta því fyrir sér að Sjálfstæðisflokkurinn fer út um land og hann hittir sitt Sjálfstæðisfólk, hann er kannski ekkert endilega að hitta marga aðra, ég veit það ekki. Þetta er bara öðruvísi. Við þurfum öll að fá tækifæri til að byggja þetta upp. Aðrir flokkar, nýir flokkar, þeir sem eru núna, þeir sem eiga eftir að koma — við þurfum að hafa tækifæri til að byggja upp. Þetta gerist ekki á einu kjörtímabili.