Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

fasteignalán til neytenda.

70. mál
[16:50]
Horfa

Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti, Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, um framsal kröfuréttar og réttindi neytenda. Frumvarpið var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi, 81. mál, og er nú lagt fram óbreytt. Flutningsmenn frumvarpsins með mér eru þingmenn Flokks fólksins; Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Frumvarp þetta er í sjálfu sér sáraeinfalt, en það snýst um að vernda rétt neytenda í þeim tilfellum þar sem lánveitandi framselur þriðja aðila kröfuréttindi sín á grundvelli samnings um fasteignalán eða það sem frá sjónarhóli neytandans mætti kalla kröfuhafaskipti.

Frá árinu 1993 hafa réttindi neytenda í tengslum við framsal kröfuréttinda verið vernduð með ákvæðum laga um neytendalán. Upp úr síðustu aldamótum var gildissvið þeirra jafnframt útvíkkað til fasteignalána neytenda. Samkvæmt þeim ákvæðum á neytandi ekki að glata neinum mótbárurétti gagnvart kröfuhafa þó lán hans sé framselt til annars kröfuhafa, heldur getur hann haldið uppi sömu mótbárum við hinn nýja kröfuhafa eins og þann fyrri. Árið 2013 voru eldri lögin leyst af hólmi með nýjum lögum um neytendalán sem náðu einnig yfir fasteignalán. Í nýju lögunum var neytendum tryggð sambærileg vernd réttinda í tengslum við framsal kröfuréttinda og í þeim eldri. Jafnframt var skerpt á þeim ákvæðum með því að árétta að sú vernd ætti einnig við um rétt til skuldajafnaðar, ásamt því að kveða á um skyldu til að upplýsa neytanda um slíkt framsal. Árið 2017 tóku svo gildi sérstök lög um fasteignalán til neytenda sem felldu slík lán undan gildissviði fyrrnefndra laga um neytendalán. Af einhverjum óþekktum ástæðum er ekkert sambærilegt ákvæði að finna í þessum nýju lögum um vernd réttinda neytenda í tengslum við framsal kröfuréttinda. Með frumvarpi þessu er því einfaldlega lagt til að úr þessu verði bætt með því að færa slík verndarákvæði með sama orðalagi í lög um fasteignalán til að tryggja jafna vernd neytenda óháð tegund láns.

Einhver gæti nú spurt sig að því hvers vegna þetta skipti máli og hversu mikilvægt þetta sé, eða hvort það heyri jafnvel ekki til undantekninga að kröfuréttindi vegna neytendalána skipti um eigendur. Því er til að svara að ekki þarf að leita lengra aftur en til bankahrunsins árið 2008. Í kjölfar þess skiptu nánast öll almenn neytendalán landsmanna um eigendur og a.m.k. helmingur fasteignalána heimilanna. Sem betur fer voru þá fyrrnefnd lög í gildi sem tryggðu neytendum óskertan mótbárurétt gagnvart nýjum kröfuhöfum. Engu að síður eru þó dæmi þess að þau réttindi væru ekki virt af nýjum kröfuhafa, sem sýnir fram á mikilvægi þess að vernda þau með lögum. Til að taka raunhæft dæmi veit ég um tilvik þar sem neytandi hafði lent í greiðsluerfiðleikum eftir hrunið en náð að semja við kröfuhafa um greiðsluaðlögun sem hefði gert honum kleift að standa í skilum og þurfa ekki að missa heimili sitt. Síðar var lánið svo framselt til annars fyrirtækis sem taldi sig ekki bundið af þeim samningum og neitaði að virða þá en ákvað þess í stað að innheimta lánið samkvæmt upphaflegum skilmálum án þess að gefa neitt eftir. Þetta leiddi til þess að viðkomandi neytandi gat ekki staðið undir hinum auknu byrðum og missti heimili sitt í kjölfarið.

Annað dæmi er þegar svokölluð smálán, sem hafa margoft verið til umræðu bæði hér á þingi og úti í samfélaginu, skiptu ítrekað um hendur og enduðu loks í eigu eins og sama innheimtufyrirtækisins, eftir að upphaflegir lánveitendur höfðu lagt upp laupana. Þá hafði komið í ljós að stór hluti þeirra neytenda sem átti í hlut höfðu verið krafðir um og ofgreitt ólöglega háan lánskostnað. Sem betur fer var réttur þeirra til skuldajafnaðar þó tryggður í lögum um neytendalán en ef um fasteignalán hefði verið að ræða er alls óvíst hver afdrif þeirra hefðu getað orðið samkvæmt núgildandi lögum.

Nýlegt dæmi er enn nærtækara, en 7. febrúar sl. var kveðinn upp dómur í máli þar sem var tekist á um skilmála um breytilega vexti neytendaláns frá Landsbankanum. Þar sem ekkert kom fram í skilmálanum um með hvaða hætti eða við hvaða aðstæður vextir breyttust var skilmálinn dæmdur ólöglegur og bankanum gert að endurgreiða oftekna vexti. Nýi Landsbankinn reyndi m.a. að byggja málsvörn sína á því að þetta brot gegn réttindum neytenda kæmi honum ekki við því hann hefði ekki veitt lánið heldur fengið skuldabréfið framselt frá gamla Landsbankanum, sem fór á hausinn árið 2008. Við það framsal hefðu neytendurnir glatað þeim mótbárurétti sem þeir hefðu átt gagnvart fyrri kröfuhafa. Með öðrum orðum reyndi banki allra landsmanna að firra sig ábyrgð á brotinu með vísan til stærsta kennitöluflakks sögunnar. Látum það síast inn.

Þegar rökstuðningur dómsins er skoðaður nánar blasir við sá ískaldi veruleiki að bankinn hefði mögulega getað komist upp með þessa ósvífnu málsvörn og verið sýknaður ef ekki hefði verið fyrir ákvæði um óskertan mótbárurétt neytenda við framsal kröfuréttinda í eldri lögum um neytendalán sem giltu þegar lánið var tekið árið 2006. Neytendurnir hefðu þá ekki fengið efnislega úrlausn um réttindi sín heldur verið sviptir þeim á grundvelli tækniatriða og setið uppi með tjónið óbætt.

-Frá gildistöku laga um fasteignalán til neytenda 1. apríl 2017 hefur ekkert sambærilegt ákvæði verið í þeim lögum sem gilda um ný fasteignalán. Samkvæmt 41. gr. þeirrar tilskipunar sem lögunum var ætlað að innleiða ber aðildarríkjum EES að tryggja að ekki sé hægt að sniðganga þær reglur sem í henni felast með þeim hætti að neytendur glati þeirri vernd sem hún á að veita þeim. Þess vegna er nauðsynlegt að samþykkja frumvarp þetta til að hindra að ósvífnir kröfuhafar geti komið sér undan ábyrgð á brotum gegn réttindum neytenda með því einu að framselja kröfuréttindin yfir á aðra kennitölu eða með kennitöluflakki eins og það kallast á mannamáli.

Virðulegi þingheimur. Fasteignalán eru fyrir flesta neytendur langstærstu skuldbindingar sem þeir undirgangast um ævina og nema margfalt hærri fjárhæðum en almenn neytendalán. Fasteignalán geta ekki aðeins haft þýðingu fyrir fjárhagsstöðu neytanda heldur einnig áhrif á húsnæðisöryggi þeirra sem telst til grundvallarmannréttinda. Það er því í hæsta máta óeðlilegt og með öllu óásættanlegt að neytendur búi við lakari réttarvernd vegna húsnæðislána sinna en vegna annarra neytendalána.

Ágætu þingmenn. Þetta einfalda mál hefur í raun ekkert að gera með pólitíska hugmyndafræði eða skoðanamismun milli ólíkra stjórnmálaflokka heldur snýst það einfaldlega um að gera það sem er allt í senn rökrétt, réttlátt og sanngjarnt: Að tryggja jafna réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði óháð tegund skuldbindinga þeirra og að réttarstaða þeirra sé í samræmi við EES-reglur um réttindi neytenda á fjármálamarkaði. Ég hvet ykkur og okkur öll sem hér fara með valdið til að tryggja slík réttindi að taka flokkagleraugun niður í smástund og líta á þetta sem einfalt og sjálfsagt réttlætismál sem allir ættu að styðja. Ef þið gerið það er ég sannfærð um að frumvarp þetta hljóti brautargengi áður en langt um líður.