Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

almannatryggingar.

72. mál
[17:12]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Já, enn á ný stend ég hér og mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna. Með mér á frumvarpinu er þingflokkur Flokks fólksins, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

1. gr. hljóði svo: 4. málsliður 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Þá skulu atvinnutekjur ellilífeyrisþega ekki skerða ellilífeyri.

2. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta: Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að skerðingar vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði afnumdar. Málið var áður flutt á 148., 149., 151. og 152. löggjafarþingi (64. mál) en hlaut ekki brautargengi og er nú endurflutt.

Í 4. málslið 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um að ellilífeyrisþegar skuli hafa 2.400.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Þetta sérstaka frítekjumark kemur til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 300.000 kr. á ári og er þá verið að tala um hið almenna mark sem eru þessar 25.000 rausnarlegu krónur á mánuði sem einstaklingarnir fá af sínum lífeyrissjóðstekjum án þess að það skerði allt annað. Heilar 25.000 kr. er það víst á mánuði. Flokkur fólksins er með frumvarp, sem ég hef mælt fyrir áður og oftar en einu sinni, sem a.m.k. hækkar þá þessar krónur upp í 100.000 kr. á mánuði. Það mun muna um minna fyrir fólk að hafa þarna 75.000 kr. meira á mánuði. En staðreyndin er einfaldlega sú að við erum búin að vinna okkur inn þessi lífeyrisréttindi í gegnum alla starfsævina. Staðreyndin er sú að þegar var verið að koma á þessu kerfi, lífeyrissjóðakerfi, var fólki talin trú um að það væri raunverulega að byggja upp öryggi til framtíðar, að skapa sér mögulega betri efri ár, að efri árin yrðu framtíðargæðaár, hugsið ykkur. Þú áttir ekki að þurfa að kvíða þeim, elskulegi eldri borgari, því þú hafðir unnið þér inn réttindi til þess að lifa sómasamlegu, þolanlegu lífi eftir brauðstrit þitt á vinnumarkaði alla þína starfsævi.

En hver er reyndin? Hver er niðurstaðan á öllu þessu? Jú, Flokkur fólksins fór í mál við íslenska ríkið á sínum tíma fyrir hönd eldra fólks til þess að láta reyna á það þegar það hafi gerst í löggjöfinni, eins og vill nú stundum verða, handvömm eins og gerist stundum, að hinn einbeitti vilji ríkisvaldsins til þess að skerða eldra fólk vegna greiðslu úr lífeyrissjóði féll óvart niður. Hann féll óvart niður í janúar og febrúar árið 2017. Það var einmitt um þessi áramót sem var verið að einfalda, eins og þau kölluðu það, kerfi almannatrygginga þar sem öryrkjar treystu sér ekki til að fylgja þeim straumi og þeim línum sem þá voru lagðar, enda átti að þvinga þá inn í svokallað starfsgetumat og þeir kærðu sig ekki um það eðli málsins samkvæmt og skil ég það af öllu hjarta. En þarna var verið að reyna að einfalda kerfið og í handvömminni sem átti sér stað við endurprentun þá féll hreinlega út heimild ríkisins til að skerða eldra fólk vegna greiðslu úr lífeyrissjóði. Dettur fólki yfir höfuð í hug hvers lags gríðarlegar fjárhæðir það eru sem eldra fólk er skert um mánaðarlega? Það kom berlega í ljós; ríflega 2,5 milljarðar á mánuði, hvorki meira né minna. Vegna greiðslna sem þau fá úr lífeyrissjóði er eldra fólk skert um ríflega 2,5 milljarða kr. á mánuði. Þvílík framkoma. Þvílík framkoma. Þetta eru yfir 30 milljarðar á ári.

Þegar við erum að tala um nákvæmlega þetta þá segir fólk jafnvel: Já, en góða manneskja, ætlastu til að þessir moldríkir eldri borgara sem eiga fullt af eignum og fullt af peningum alls staðar séu óskertir í almannatryggingakerfinu? Viljið þið bara að þetta öryggisnet almannatrygginga, sem á einmitt sérstaklega og akkúrat að vera öryggisnet, grípi líka moldríka eldri borgara og greiði þeim óskertar almannatryggingagreiðslur? Því er náttúrlega auðsvarað: Sá sem svona spyr veit ekki hvort hann er að koma eða fara því að það er einfaldlega þannig að það er þak á þessu. Það er enginn með háar tekjur sem á rétt á því að fá greiðslur úr almannatryggingum. Þar af leiðir að mjög mikið af eldra fólki hefur ekki einu sinni sótt um þennan svokallaða ellilífeyri, vegna þess að það á ekki rétt á honum. En eins og við höfum sagt eiga allir að eiga rétt á honum. Ég veit ekki betur, eins og ég segi, en að það hafi verið lagt upp þannig með lífeyrissjóðakerfið á sínum tíma, þá var þetta algerlega skýrt: Þú átt rétt á almannatryggingakerfinu, þínum ellilífeyri. Þú ert búinn að borga skatta og skyldur alla þína starfsævi í ríkissjóð. Hér ert þú að safna þér, góði maður eða kona, auknum réttindum til eldri áranna með því að safna í lífeyrissjóð. Svo er náttúrlega ekki tekið tillit til þess að mjög margir hafa þegar hrokkið upp af áður en kemur nokkurn tíma til þess að þeir geti fengið að nýta sér og nota það sem er búið að taka af þeim og þeir hafa verið að greiða í lífeyrissjóð. Það er enginn að tala um það. Þeir milljarðar fara bara í hítina og fara ekki einu sinni til afkomenda, eru ekki einu sinni virtir sem eignarréttur. Þar er enn eitt frumvarp sem Flokkur fólksins hefur mælt fyrir, að skilyrðislaust eigi þær greiðslur sem við höfum greitt í lífeyrissjóð að fylgja rétti eignarréttarins, stjórnarskrárvörðum rétti eignarréttarins, því þetta er jú ekkert annað en okkar laun og það sem við erum búin að vera að vinna fyrir.

En þá sný ég mér aftur að þessu athyglisverða frumvarpi. Þar sem við erum endalaust að kalla eftir því að hætta að skerða eldra fólk vegna atvinnutekna þá erum við einfaldlega að segja: Við erum mismunandi hress, við erum misbær til þess að halda áfram að vinna og vilji okkar til þess er líka mismunandi. Hvers vegna skyldi okkur þá vera gert það erfitt? Af hverju er eldra fólki sem er við fulla heilsu og getur ekki hugsað sér að hætta að vinna gert það nánast ómögulegt að vinna? Þeim er refsað fyrir það að vilja í rauninni bjarga sér sjálf af því að fyrir mjög marga af eldri borgurum sem búa við bág kjör væri þeim það alger lífsbjörg að fá að vinna í friði. En ég held að það séu engir skattlagðir og skertir hærra og meira en þeir sem voga sér að vinna yfir þetta frítekjumark vegna þess að þá skerðist um leið um 45% fyrir utan staðgreiðslu skatta sem af þér er tekið. Þegar upp er staðið þá eru þessir einstaklingar skattlagðir og skertir um hátt í 80%, hvorki meira né minna, þannig að eðli málsins samkvæmt sjáum við lítinn fjárhagslegan hag af því að leggja í það að aka á vinnustað, koma sér úr og í vinnu og allt það, því að þá eru náttúrlega hin 20 prósentin hvort sem er fokin. Það má kannski segja að þeir sem leggja í það að vinna og virkilega berjast fyrir því að vinna á efri árum séu þeir sem geta hreinlega ekki hugsað sér að vera einir heima og geta hreinlega ekki hugsað sér annað félagslega en að fá alla vega að vera virkir í samfélaginu. Við eigum að taka utan um þetta fólk. Við eigum virkilega að sýna þá virðingu að veita eldra fólki það sem heitir gæðaár á efri árum. Efri árin eiga að vera uppskeruár, gæðaár, þar sem við eigum að uppskera eftir að hafa eytt öllu lífshlaupinu hér, allri starfsemi okkar í okkar fallega landi til að byggja það upp. Það á ekki að refsa okkur fyrir það. Það á að umbuna fólki en ekki refsa því, enda er það alveg staðreynd og sannað að umbun virkar alltaf betur, alls staðar, heldur en refsing.

Það er gömul saga og ný og verður aldrei á móti mælt að það að vera hrifsaður burtu af vinnumarkaði þegar maður er orðinn fullorðinn og sjá sér ekki fært að fylgja því eftir að halda áfram að vinna dregur úr lífsgæðum, það dregur úr lífsgleði, það dregur úr lífsvilja og það veldur frekari sjúkdómum fyrr en ella. Það er endalaust verið að tala um að þjóðin sé að eldast — og ofsalega finnst mér það nú fallegt að vita það að við séum að eldast og kannski eigum við öll sem hér erum inni eftir að dansa hérna alveg rosa kát hátt í 100 ára eða eitthvað — en það virðist vera mjög erfitt fyrir ríkisstjórnina að horfast í augu við það vegna þess að þetta er allt saman kostnaður. Allt excel-skjalið verður rosalega neikvætt. Það er rosalega neikvætt ef við förum að verða svona gömul. Við eigum bara að fara éta einhvern óþverra svo við verðum ekki svona gömul til að reyna að hjálpa til í hagkerfinu. Hætta að hugsa um heilsu svo við verðum ekki svona gömul.

Við í Flokki fólksins erum algerlega á öndverðum meiði. Við segjum: Sýnum eldri borgurum virðingu, gerum efri árin að gæðaárum, gefum þeim val um að vinna án þess að refsa þeim og í guðanna bænum, þessi tæpu 80% sem þau eru rukkuð um fyrir hverja krónu umfram þetta svokallaða frítekjumark — ég veit ekki hvað er hægt að kalla það; arðrán, mismunun, kúgun, fjárhagslegt ofbeldi, eins og minn hv. samflokksmaður, Guðmundur Ingi Kristinsson, kallar það gjarnan, fjárhagslegt ofbeldi eða forræðishyggja: Æi, vertu ekki að fara út að vinna, farðu bara heim til þín og haltu áfram að vera gamall. Við nennum ekki að hafa þig hérna, þú ert búinn að vera hérna allt of lengi. Við í Flokki fólksins segjum nei, við viljum ekki svona framkomu. Við berum virðingu fyrir okkur eldra fólki. Við sjáum mannauðinn í eldra fólki. Viskan, þekkingin og reynslan, ef hún fær að blandast saman við líkamlega atorku og getu, hvers vegna í veröldinni skyldum við ekki taka því fagnandi og hvetjandi? Ég get ekki skilið það. Mér er það algjörlega fyrirmunað

Ef ég nefni aftur þetta mál sem við unnum fyrir hönd eldra fólks þann 31. maí 2019 kom þar glöggt í ljós hvernig þau voru skert. Ríkissjóður þurfti að greiða ríflega 5 milljarða kr. til þessara einstaklinga fyrir þessa tvo mánuði og ofan á það bættust vextir og vaxtavextir þannig að þegar upp var staðið var þetta vel á sjöunda milljarð króna. Hvað sögðu ráðherrarnir við því? Að það hefði kannski verið hægt að nota þetta fjármagn betur en að vera borga lögbrotið okkar. Sumir af þessum eldri borgurum væru bara moldríkir og þessum pening hefði verið betur varið einhvers staðar annars staðar. Ég segi bara: Hverjum dettur í hug að tjá sig svona? Hvernig dettur þeim í hug sem situr báðum megin við borðið, sem löggjafinn og framkvæmdarvald, að tjá sig hér með þeim hætti að það sé bara eiginlega réttlætanlegt að ríkið brjóti á þegnunum og það eigi bara komast upp með það af því annars kosti það svo mikla peninga að brjóta lögin?

Mig langar að vísa í það að dr. Haukur Arnþórsson vann greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík fyrir nokkru síðan og ritaði grein um þá rannsókn sína í Morgunblaðið 23. nóvember 2017 og sú grein á við enn þann dag í dag. Þar kemur fram að afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna myndu í rauninni alls ekki þurfa að auka útgjöld ríkissjóðs á nokkurn hátt, ekki á nokkurn skapaðan hátt, eða draga frekar úr tekjum eins og við myndum segja vegna þess að skerðingarnar á eldra fólk draga úr tekjum ríkissjóðs en auka ekki útgjöld eins og þeir gjarnan vilja leggja það fram.

Staðreyndin er sú að það kom fram að hugsanlega myndi ríkissjóður hagnast stórlega á því vegna þess að ef við tölum um lýðheilsuna, ef við tölum um skattana sem fólkið fær að greiða í ríkissjóð þá sér það hver heilvita maður að skattarnir myndu gera meira en að standa undir skerðingunum sem myndu þá detta niður á móti. En einhverra hluta vegna hefur það verið þyrnir í augum stjórnvalda að afnema þessar skerðingar og með öllu, það hefur verið þyrnir í þeirra augum. Við í Flokki fólksins höfum ítrekað bent á hvernig við getum fengið fjármagn upp á tugi milljarða bara á einum degi, með einu pennastriki, bara ef þeir vildu afnema undanþágureglu lífeyrissjóðanna hvað lýtur að staðgreiðslu við innborgun í sjóðinn. Við sem sagt greiðum ekki staðgreiðslu af lífeyrissjóðsgreiðslunum sem eru teknar af okkur heldur greiðum við staðgreiðsluna þegar við fáum greitt út úr lífeyrissjóðnum og þá aftur, ef við erum svo heppin að lifa það af að nýta okkur lífeyrissjóðina því að það eru allnokkrir sem eru farnir á vit feðranna áður en þeir ná þeim aldri. Þarna myndum við fá sennilega, með því að afnema þessa undanþágureglu, hátt í 60 milljarða á ári. Inn í lífeyrissjóðakerfið dælast yfir 200 milljarðar á ári og ekkert af þessu er skattlagt, ekki neitt. Ríkissjóður fær ekki krónu af þessu innflæði en mun hærri tölu hins vegar af útstreyminu. Mismunurinn þarna er hátt í 60 milljarðar. Það er verið að grobba sig af því að selja hérna gullgæsina okkar, Íslandsbankahlutinn, seinni hluturinn gaf um 53 milljarða. Það er bara einskiptissala, þeir geta ekki selt hann aftur frekar en við eyðum sömu krónunni tvisvar. Hins vegar myndum við alltaf fá þessa upphæð, alltaf, hvert einasta ár. Lífeyrissjóðirnir eiga núna ríflega 6.000 milljarða. Þeir sem hafa verið á móti því að afnema þessa undanþágureglu og hafa verið á móti því að taka staðgreiðslu við innborgun og hafa sagt að það rýri í rauninni möguleika lífeyrisþega á því að fjárfesta á ávöxtun með því að láta peningana liggja þar inni verða að segja það einhverjum öðrum en mér vegna þess að við höfum horft upp á að 600 milljarðar töpuðust t.d. í hruninu. Við höfum horft upp á alls konar áhættufjárfestingar. Við vitum að það er búið að ræða við fullt, fullt af fólki sem á að heita eigendur lífeyrissjóðanna sem segir: Veistu það, ég vildi miklu, miklu frekar losna við að borga skattana þegar ég er orðinn fullorðinn með lágar tekjur eða þegar ég er öryrki og neyðist til þess að fara að taka út úr sjóðnum mínum, að þá sé tekinn af mér hátt í 40% skattur. Það er svakalegt högg. Það er alltaf verið að hvetja okkur til að spara; legðu til hliðar, sparaðu og sparaðu, sparaðu, en það má líta á það sem stórkostlegan sparnað að greiða staðgreiðsluna strax við innborgun og vera frjáls frá henni þegar við fáum greitt úr sjóðnum. Á sama tíma getum við notað þetta fjármagn á móti til þess að höggva í allar þessar skerðingar, keðjuverkandi skerðingar og alls konar óþverragang og ofbeldistaktík, eins og ég kalla það, sem launþegar eru beittir hér á okkar góða landi.

Hæstv. þáverandi barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, tók það að sér að skoða hvort við gætum raunverulega reynt að semja um þetta í einni samningslotunni fyrir eitt jólaþinghléið. Hann ætlaði að athuga hvort það væri raunverulega rétt hjá Flokki fólksins að það kostaði ekki krónu að afnema þetta frítekjumark með öllu og gefa þeim sem treystu sér til kost á því að vinna og greiða bara eðlilega skatta og skyldur af tekjunum sínum. Útkoman varð sú að Capacent var fengið til að skoða þetta. Við fengum aldrei að sjá breyturnar eða forsendurnar. Hann hins vegar kom með það að þeir hefðu sagt að þetta kostaði ríkissjóð sennilega um 3 milljarða eða réttara sagt að ríkissjóður yrði af sennilega um 3 milljörðum í tekjur ef þeir ætluðu að gera þetta svona. Við fengum aldrei að sjá breyturnar, fengum aldrei að sjá neina forsendur og Capacent fór á hausinn daginn eftir. Alltaf voru þessi gögn á leiðinni til okkar til að sjá og bera saman og halda áfram að fylgja því eftir en ég hef ekki fengið að sjá þau enn. Ég höfða til skynsemi fólks. Ef þú ert með milljón á ári í tekjur í viðbót það sem þú hefur og greiðir af því skatta þá eru það allnokkrar krónur vegna þess að væntanlega ertu búinn að nýta persónuafsláttinn þinn í það sem þú ert með fyrir þannig að þú greiðir alveg fullan skatt af öllum viðbótartekjum. Af þessari milljón myndi ríkissjóður náttúrlega fá hátt í 400.000 kr. í kassann.

Hvers vegna ekki að gefa þetta frelsi? Hvers vegna ekki að sýna lágmarksvirðingu? Hvers vegna ekki að aðstoða eldra fólk við að gera efri árin að gæðaárum? Flokkur fólksins skilur það ekki. Það er ekki nokkur lífsins leið að við skiljum það. Er þetta mannvonska eða eru þetta lélegir útreikningar? Hvað er það sem fær stjórnvöld til að heykja sér af því að koma með svona lítilræði til móts við fólkið sem við eigum að bera mestu virðingu fyrir í samfélaginu í dag? Hvaða er það? Ég verð að viðurkenna að ég á ekki orð yfir þessu, ég get ekki skýrt þetta út, mér er það algjörlega hulin ráðgáta enda hef ég hrópað þetta hér í fimm ár.

Ég segi bara, frú forseti: Þessu verður fylgt eftir með greinaskrifum og öðru slíku. Við erum ekkert að gefast upp, enda vonumst við öll til þess að ná þeim áfanga að tilheyra þeim hópi sem fjölgar ört í og verða eldri borgarar. Við stefnum öll þangað sem erum svo heppin að lifa það af, ekki satt? Til framtíðar og lýðheilsulegu séð, virðingarlega séð, gæðalega séð, í allar áttir séð er þetta gott mál. Okkur í Flokki fólksins væri sama hver tæki málið af stjórnarflokkunum. Þeir mega eiga þetta mál. Við þurfum hvergi að koma nálægt því svo framarlega sem það nær fram að ganga því að alltaf vitum við hér hvaðan það kemur og fyrir okkur er það nóg.