Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

almannatryggingar.

72. mál
[17:39]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð sammála. Ég verið hér í pontu áður og tekið undir þau mál frá Flokki fólksins sem varða afnám eða það að draga úr skerðingum. En ég ætla að nýta tímann núna, þann stutta sem ég hef, til að velta aðeins fyrir mér málinu með þessa greiningu sem félagsmálaráðuneytið lét gera þar sem talað er um 2,1 milljarða kr. kostnað. Mér finnst það frekar vont mál þar sem þarna kemur fram að forsendurnar séu ekki aðgengilegar. Mér finnst það bara vera mjög bagalegt upp á það að þingmenn geti tekið upplýsta afstöðu til þess hvort þessi tala er rétt og hversu góðar forsendurnar eru.

Ég vildi því forvitnast aðeins um það og sjá til hvort það kemur kannski fram eitthvað meira um það í síðari ræðum, af því að ég sé að þetta mál hefur farið inn í nefnd áður þannig að það hefur kannski verið reynt að ýta eitthvað á eftir því þar eða að fá aðrar úttektir. En mér finnst þetta mjög mikilvægt og mikilvægur liður í að reyna að sannfæra fólk um að það séu til staðar alveg full og aðgengileg gögn, þó að að sjálfsögðu sé væntanlega svolítið erfitt að leggja mat á kostnaðinn af því að við vitum kannski ekki alveg hversu margir sem ekki eru að vinna núna myndu fara að vinna ef skerðingarnar væru afnumdar og alls konar svona áhrif sem er erfitt að sjá fyrir. En þá er náttúrlega þeim mun mikilvægara að sjá forsendurnar til að geta lagt mat á þær.