153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[15:26]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Verðbólgan er komin upp í tveggja stafa tölu og það sem hækkar einna mest eru daglegar neyslu- og nauðsynjavörur, matur, drykkur, föt. Það er baráttan gegn verðbólgu sem ætti að vera forgangsmál hjá ríkisstjórninni og það veit fólkið í landinu. En hvert er planið? Það veit hins vegar enginn. Ríkisstjórnin hefur ekki sett fram neina aðgerðaáætlun, ekkert plan, um það hvernig eigi að taka á vaxandi verðbólgu. Hæstv. innviðaráðherra muldrar eitthvað um að við þurfum öll að tala saman, standa saman, líta í eigin barm og setjast niður. Fjármálaráðherra biðlar til fólks að vera ekki að leita að sökudólgum, finnst vinnumarkaðslíkanið alveg ómögulegt. Hæstv. forsætisráðherra hefur svarað því til hér á Alþingi, í umræðu um verðbólgu, að höfuðábyrgðin liggi hjá Seðlabankanum.

Þá vil ég spyrja: Hver er ábyrgð ríkisstjórnarinnar í 10,2% verðbólgu? Og hvert er planið? Ef helsta framlagið átti að vera það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan, að samþykkja aðhaldssöm fjárlög fyrir árið 2023, þá féll stjórnarmeirihlutinn einfaldlega á því prófi. Útgjöld ruku upp úr öllu valdi milli umræðna án þess að aflað væri tekna til að vega upp á móti þensluáhrifunum af þeim, það var ekki pólitískur vilji til þess.

Hvaða aðgerðir verður ráðist í? Þetta er spurning mín. Hvenær verður það gert og hvernig verður ríkisfjármálunum beitt gegn þenslunni? Ætlar ríkisstjórnin að byrja að beita þeim almennilega á næsta eða þarnæsta ári þegar verðbólgan verður komin niður? Og athugið að hér er ég ekki að spyrja um einhverjar stuðningsaðgerðir sem þegar hafa verið samþykktar, af því að það er nú svolítið lenskan hér að þylja upp eitthvað sem hefur verið gert í fortíðinni, ég er ekki að spyrja um einhverjar stuðningsaðgerðir sem verðbólgan er þegar búin eða byrjuð að éta upp. Ég er að spyrja: Hvað mun ríkisstjórnin gera næstu vikur og næstu mánuði til þess að koma böndum á verðbólguna og verja tekjulægri hópa gegn henni? Er það í alvörunni bara fyrst og fremst þessi matvörugátt? Er hún stóra framlag þessarar ríkisstjórnar gegn verðbólgunni? 120 milljarða hallarekstur ríkisins og matvörugátt — er það í alvörunni planið gegn verðbólgunni?