153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

breytingar á háskólastiginu.

[15:39]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það kom þó ekki fram í svari ráðherra hvers vegna hún telur að ekki hafi tekist að ná þessum markmiðum. En líkt og ég nefndi áðan þá hefur sú gagnrýni komið fram að það sé verið að taka fjármuni og einangra í rauninni við tiltekin fög. Það er kannski það sem hefur verið gagnrýnt. Þá er verið að taka fjármuni sem áður fóru í þessi svið sem eru að kveinka sér núna.

Annað sem vakti athygli og undrun við lestur umfjöllunar Heimildarinnar var það sem haft var eftir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, „að enginn hafi séð það fyrir að háskólarnir kæmu út neikvætt og að hún hefði ekki vitað af rekstrarörðugleikum þegar sjóðurinn var stofnaður“. Það vekur óneitanlega furðu að það hafi komið sjálfum ráðherra málaflokksins að óvörum að rekstrarörðugleika gætti hjá háskólunum. Vil ég því spyrja í kjölfarið: Hvernig má það vera að hæstv. ráðherra háskólamála og fyrrverandi formanni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sé ekki kunnugt um fjárhagsstöðu Háskóla Íslands? (Forseti hringir.) Félag prófessora, Félag háskólakennara og Stúdentaráð Háskóla Íslands hafa ályktað um hana í áraraðir og gagnrýnt sérstaklega harðlega undanfarið.