Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

Mikil notkun þunglyndislyfja á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

[16:35]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðar og gagnlegar umræður sem vonandi reynast gott veganesti til áframhaldandi aðgerða í þágu bættrar geðheilsu þjóðarinnar. Af umræðunum að dæma er ákall eftir skýrari gögnum og greiningu á rót vandans. Það er eitthvað þarna úti í samfélaginu okkar sem veldur þessari djúpu vanlíðan. Ég vona að hæstv. ráðherra taki boltann og hlaupi með hann, eins og honum ætti að vera lagið.

Biðin eftir þjónustu er auðvitað of löng. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem tveir þingmenn hafa gert að umtalsefni, en hún kom út í fyrra, er einmitt fjallað um biðina eftir geðheilbrigðisþjónustu en mönnun er ein af orsökum biðarinnar. Mönnun er tilefni í aðra sérstaka umræðu og ég ætla ekkert að fara frekar út í það hér. En það má nefna að stjórnvöld hafa gripið til aðgerða og nefna má sérstaklega nýtt samstarfsverkefni háskólanna, um færni- og hermisetur, til að fjölga nemum í klínísku námi í heilbrigðisvísindum.

Fyrst skýrsla Ríkisendurskoðunar var nefnd þá bar hún auðvitað líka öll merki þess að átak hefur átt sér stað af hálfu stjórnvalda í geðheilbrigðismálum þó að framkvæmdin sé vissulega ekki nóg. Það er einmitt ástæðan fyrir því að við erum að ræða þetta hér í dag. Heilbrigðisyfirvöld verða að leggja áherslu á fjölbreyttari úrræði og auðvelda aðgengi að þeim. Sala á þunglyndislyfjum mun að öllum líkindum halda áfram að aukast hér á landi nema aðgengi að öðrum meðferðarúrræðum aukist. Til þess þarf fjármagn en forgangsröðun á þessu sviði getur veitt gríðarlegan sparnað til framtíðar. Vægi geðraskana sem fyrstu ástæðu örorku hefur til að mynda aukist verulega að umfangi undanfarna þrjá áratugi og vegur nú sem þyngsta ástæða örorku og einna helst hjá ungu fólki. Þá verður einnig að skoða hvort aukin áhersla á viðtalsmeðferð muni minnka þunglyndislyfjanotkun sem lækkar kostnað ríkisins á móti vegna lyfjanna.

Lykillinn að bættri geðheilsu þjóðarinnar er ekki byggður á einni aðferð, einni pillu, einum hreyfiseðli eða einum niðurgreiddum sálfræðitíma. Lykillinn að bættri geðheilbrigðisþjónustu verður frekar að líkjast lyklakippu húsvarðarins.