Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[16:41]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd utanríkismálanefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145. Ég ætla að fara hér yfir helstu atriði.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi geri breytingar á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145, frá árinu 2016, en með henni fól Alþingi ríkisstjórninni að fylgja stefnu um þjóðaröryggi sem tryggði sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.

Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016, ber ráðinu að stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar á fimm ára fresti. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að þjóðaröryggisráð telji að þjóðaröryggisstefnan frá árinu 2016 hafi staðið vel fyrir sínu með víðtækri skilgreiningu öryggishugtaksins þar sem litið er til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta. Stefnan sé byggð á grunngildum þjóðarinnar: lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti og sjálfbærri þróun, afvopnun og friðsamlegri lausn deilumála. Vernd grundvallarréttinda, réttaröryggi borgaranna og stöðugleiki í stjórnskipulegu, efnahagslegu, menningarlegu og félagslegu tilliti séu meðal þeirra grundvallargilda sem borgaralegt og þjóðfélagslegt öryggi hvílir á. Loks er áréttað að grundvallarforsenda þjóðaröryggisstefnunnar sé staða Íslands sem herlaust land sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana

Í greinargerð er jafnframt bent á að ógnir og áskoranir í öryggismálum séu síbreytilegar og flóknari en áður og að hröð tækniþróun, einkum í net- og upplýsingatækni, hafi leitt til margvíslegra framfara en um leið nýrra áskorana. Ný staða í öryggismálum Evrópu, alvarlegar afleiðingar hernaðar Rússa í Úkraínu og aukin spenna í alþjóðasamskiptum kalli á aukna árvekni á fjölmörgum málefnasviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til. Því sé rétt að skerpa á tilteknum sviðum þjóðaröryggisstefnunnar og taka tillögurnar m.a. til þess að þjóðaröryggisstefna tryggi lýðræðislegt stjórnarfar, áherslu á hafsvæðið umhverfis landið, áherslu á vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallaþols samfélagsins, áherslu á upplýsingaöryggi og fjarskiptaöryggi og áherslu á mikilvægi samvinnu og samhæfingar í stjórnkerfinu á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefnan nær til. Þá er lagt til að bæta við þjóðaröryggisstefnuna nýjum lið þar sem kveðið er á um að sporna við röskun á lífsskilyrðum og búsetu vegna loftslagsbreytinga, m.a. með samdrætti í kolefnislosun, orkuskiptum, grænni fjárfestingu og virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi til að bregðast við loftslagsbreytingum.

Nefndin fjallaði um málið á átta fundum, fékk á sinn fund fjölda gesta og henni bárust umsagnir. Lista yfir gesti og umsagnaraðila er að finna í nefndarálitinu sem liggur frammi.

Í umfjöllun nefndarinnar er gerð tillaga um að gerðar séu breytingar á þjóðaröryggisstefnu í nokkrum atriðum. Nefndin telur tillöguna til breytingar á þjóðaröryggisstefnu tímabæra og endurspegla breytt öryggisumhverfi í okkar heimshluta og aukna spennu í alþjóðasamskiptum. Nefndin telur mikilvægt að stjórnvöld séu á varðbergi gagnvart kvikum breytingum í hinu alþjóðlega umhverfi, sjái til þess að Ísland sé virkur og áreiðanlegur aðili í því alþjóðlega samstarfi sem þjóðaröryggisstefnan tekur til og fylgi eftir alþjóðlegum skuldbindingum henni tengdum. Þá fagnar nefndin því að lagt sé til að bæta við stefnuna nýjum lið um loftslagsbreytingar.

Með tillögunni eru lagðar til breytingar á inngangsorðum þjóðaröryggisstefnunnar til áhersluauka á lýðræðislegt stjórnarfar og vernd mikilvægra innviða. Nefndin tekur undir þær breytingar en flytur jafnframt tvær breytingartillögur sem taka til inngangsorðanna. Annars vegar telur nefndin rétt að skerpa á því að þjóðaröryggisstefnan taki til varna landsins. Sú breyting á inngangsorðum kallast á við 3.–6. tölulið þjóðaröryggisstefnunnar sem taka til aðildar að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamnings við Bandaríkin, norræns samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála, og varnarmannvirkja. Nefndin leggur áherslu á grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins í þessu sambandi. Hins vegar flytur nefndin breytingartillögu þar sem texti inngangsorða um stöðu Íslands sem „fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki“ er umorðaður og einfaldaður.

Í d-lið tillögugreinarinnar hefur orðið „loftslagsbreytingum“ fallið út fyrir mistök og flytur nefndin breytingartillögu því til leiðréttingar.

Í umfjöllun nefndarinnar um net- og upplýsingaöryggi kom hugtakið stafrænt fullveldi ítrekað fyrir sem vísar til getu ríkja til þess að tryggja hina stafrænu innviði og að varaleiðir og þrautavaraleiðir séu til staðar svo að gangvirki samfélagsins verði varið ef neyðarástand skapast. Nefndin flytur breytingartillögu við f-lið tillögugreinarinnar um net- og upplýsingaöryggi þess efnis að hugtakið komi þar fyrir.

Á fundi nefndarinnar með forsætisráðherra og formanni þjóðaröryggisráðs var m.a. rætt hvernig auka mætti samráð þjóðaröryggisráðs og utanríkismálanefndar. Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð ber ráðinu að upplýsa Alþingi árlega um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og utanríkismálanefnd þingsins um hver þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar. Á fundinum kom fram skýr vilji beggja aðila til að auka samráðið og undirstrikar nefndin að lokum ásetning sinn til þess.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Ég vil að lokum þakka nefndarmönnum fyrir góða vinnu í málinu þó að einhverjir hefðu viljað ganga lengra í breytingum og skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Friðrik Friðriksson, Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, með fyrirvara.

Það var ákaflega mikilvægt að nefndin skyldi ná saman um nefndarálit og stæði öll að því. Við lögðum talsvert mikið á okkur til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu okkar allra með okkar nefndaráliti af því að það skiptir máli að geta sýnt samstöðu og staðið saman hér þó að áherslur geti verið mismunandi. Ég vil halda því til haga að mér þótti það afskaplega verðmætt að nefndin skyldi öll standa saman að þessu áliti og þessari niðurstöðu.

Ég vil kannski í framhaldi fylgja aðeins eftir eigin áherslum og fara yfir málið hvað mig varðar eftir að hafa kynnt hér álit nefndarinnar. Hér verða kynntar tvær breytingartillögur á eftir við stefnuna. Eins og ég sagði áðan tel ég það vera afar farsælt að við höfum náð saman um niðurstöðu, öll nefndin, og því tel ég einsýnt fyrir mitt leyti að ég fer ekki að styðja breytingartillögur við það sem við í nefndinni sem slíkri náðum saman um, úr hvaða átt sem þær annars koma. Þetta var niðurstaða sem ég virði og stend með alla leið, svo það sé sagt hér, þó að góður hugur standi á bak við frekari hugmyndir þar um. Frá sjálfum mér sérstaklega, ég tala nú ekki um eftir upplifun síðustu daga við að ræða þessi mál og öryggismál almennt og þjóðaröryggi, vil ég segja að við höfum náttúrlega upplifað gríðarlegar breytingar og heimurinn er ekki sá sami og hann var, jafnvel fyrir rúmu ári síðan, og við stöndum frammi fyrir því. Ég vil vitna í orð Olhu Stefanísjinu, varaforsætisráðherra Úkraínu, sem sagði við okkur formenn utanríkismálanefnda sem stödd vorum í Kiev fyrir nokkrum dögum til að sýna þjóðinni samstöðu ári eftir blóðuga innrás Rússa í landið: Úkraína hefur breytt heiminum. Úkraína hefur breytt sjálfri sér. Á öðrum fundi með Zelenskí forseta sagði hann: Við viljum ekki tapa landinu okkar eða fullveldinu.

Fáir skilja betur en við Íslendingar þýðingu þess að standa vörð um endurheimt og nýfengið fullveldi. Ísland stendur þétt að baki Úkraínu og annarra ríkja smárra sem stórra til fullveldis, yfirráða yfir eigin landi og möguleika til að móta og ráða eigin framtíð í lýðræðissamfélagi. Það má ekki líðast að ríki geti farið með stríði á hendur öðrum til að sækja land eða yfirráð. Einn hornsteinn þjóðaröryggisstefnunnar er fullveldi Íslands en einnig þétt samstarf við okkar vina- og bandalagsþjóðir og samstaða gegn aðsteðjandi ógnum, samstarf sem er bæði grundvallað á vinsamlegum samskiptum þjóða í milli en einnig skuldbindandi samningum. Við þurfum ávallt að leita allra leiða til að tryggja frið og vinsamleg samskipti þjóða og gagnkvæma virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti þeirra til að koma í veg fyrir stríð. Aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, Oleksandr Polishchuk, sagði við okkur 23. febrúar sl., með leyfi forseta: Stríð hefjast með atvinnuhermönnum og er lokið með kennurum og nemendum þeirra. Hann minnti þar á þá nöturlegu staðreynd hve mörgum mannslífum er fórnað í stríðsátökum.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt fyrir okkar þjóðaröryggi að við séum sem best búin til að verjast og takast á við hvers kyns netógnir, netglæpi, netárásir, falsfréttir, atlögur að stoðum lýðræðis og stafrænar árásir á grunninnviði, að til staðar sé nauðsynleg þekking og umgjörð í landinu til að veita okkur vernd fyrir sífellt flóknari og háþróaðri netógnum. Ein af grundvallarstoðum okkar þjóðaröryggis felst í stafrænu sjálfstæði þjóðarinnar, að við séum ekki öðrum háð um slíkar varnir. Þá þekkingu getum við m.a. sótt til okkar vinaþjóða sem sterkastar eru á þessu sviði. Stafrænt sjálfstæði Íslands þarf að vera ein af grunnstoðum okkar þjóðaröryggisstefnu. Mikilvægur liður í því er að efla varnir okkar við fjölþáttaógnum og að setja aukinn þunga í uppbyggingu traustra innviða á sviði raforkuöryggis, fjarskiptaöryggis og á fleiri sviðum. Það öryggi felst ekki einungis í aðgangi að slíkum innviðum heldur ekki síður að hægt sé að treysta á það öllum stundum. Ef engu að síður verður rof vegna náttúruhamfara, slysa eða skemmdarverka þá sé viðbúnaður til staðar til að koma virkni þeirra innviða aftur í lag sem allra fyrst. Þetta verkefni er ekki síst vandasamt þar sem fjarlægðir eru miklar, strjálbýlt, ótryggt veðurfar, samgöngubrestir eða aðrar þær aðstæður sem geta skapað vanda. Sú er einmitt staðan víða á norðurslóðum. Vaxandi kapphlaup stórríkja og ríkjasambanda um yfirráð á norðurslóðum og yfir auðlindum sem þar er að finna er einmitt mikið áhyggjuefni og sú viðbótaráhætta sem samfélögum á þessum slóðum og innviðum stafar af þeirri þróun. Þá hljótum við að horfa til mikilvægis þess að tryggja sem best aðfangakeðjur, ekki síst til að viðhalda grunninnviðum, og að til staðar séu neyðarbirgðir, svo sem lyfja-, eldsneytis- og matvælabirgðir, hér sé öflug matvælaframleiðsla og að við getum verið sjálfum okkur sem mest nóg um matvæli.

Í dag þurfum við að bregðast við margháttuðum nýjum fjölþáttaógnum og tryggja netöryggi. Það gerum við með okkar þjóðaröryggisstefnu og þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er á netvörnum og innviðum á landsvísu. Við lifum í mikið breyttum heimi. Við því höfum við verið að bregðast og verðum að gera áfram af krafti í mörgum grundvallaratriðum, bæði sem fullvalda þjóð á okkar forsendum, á grundvelli okkar sérstöðu sem vopnlausrar þjóðar og eyríkis í Norður-Atlantshafi en ekki síður í samstarfi við bandalagsþjóðir okkar og þær þjóðir sem deila með okkur grunngildum og sýn á samfélag þjóðanna og standa vörð um mannréttindi, lýðræði og dómskerfið.

Við eigum að bregðast við nýjum veruleika af yfirvegun, stillingu og umfram allt festu með hagsmuni lands og þjóðar í forgrunni. Það gerum við best í samstarfi við þær vinaþjóðir og þau lönd sem standa okkur næst. Tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna stendur á traustum grunni. Við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu þar sem rödd Norðurlandaþjóða mun verða sterkari á næstu árum. Þær eru um leið okkar helstu vinaþjóðir sem við eigum mikla samleið með og hafa umfram aðrar talað fyrir friðsamlegum lausnum deilumála. Við erum að treysta varnir okkar og viðbúnað vegna nýrra ógna; fjölþáttaógnir, netöryggi, mögulegar árásir á innviði, að grunninnviðir standi sem best af sér náttúruhamfarir, slys og umhverfisslys, jafnvel af mannavöldum eða hryðjuverka af því tagi, fæðuöryggi og grunnviðbúnaður eins og olíubirgðir í landinu og aðrir lykilþættir aðfangakeðjunnar sem halda grunninnviðum gangandi á átaka- eða hamfaratímum.