Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:04]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Fyrir það fyrsta erum við með þjóðaröryggisstefnu í gildi 2016 og hér er verið að fjalla um hana og gera á henni nokkrar breytingar. Í öðru lagi erum við að sjálfsögðu með margháttaðan annan viðbúnað, það er nýlega búið að uppfæra grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins, m.a. út af innrásinni og stríðinu, þannig að það er á mörgum sviðum. Við höfum sannarlega verið að bregðast við. Við erum líka stödd þar sem við erum stödd á landakortinu. Við erum ekki á landamærum Rússlands. Við skulum taka tillit til þess líka að viðbúnaður hlýtur að vera í einhverju hlutfalli við staðsetningu okkar í heiminum. En við erum að sjálfsögðu að vinna með bandalagsþjóðum okkar í öllum viðbrögðum og því sem þarf að gera í þeim efnum og það er ekki bara gert með viðbótum við þjóðaröryggisstefnu landsins. Við erum aðilar að margháttuðu öðru alþjóðlegu samstarfi og alþjóðlegum skuldbindingum og samningum. Ég vísa til þess líka að menn kynni sér nýjustu uppfærslur, m.a. á grunnstefnu NATO hvað þetta varðar.