Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég rita undir þetta nefndarálit og það segir sína sögu við málið. Það er afskaplega ánægjulegt að náðst hafi víðtæk sátt um það, kannski meiri en síðast. En vissulega þýðir það auðvitað að eitthvað sé vikið frá ýtrustu skoðunum einstakra nefndarmanna. Það áttu sér stað mjög líflegar umræður hérna áðan milli hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar og framsögumanns og formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarna Jónssonar, um það hvort og að hve miklu leyti þetta plagg væri viðbragð við innrás Rússa í Úkraínu. Um það er að segja að það er lögbundið að það á að endurskoða stefnuna á fimm ára fresti sem hefur nú tafist í 1–2 ár. Að sjálfsögðu á ævinlega að endurskoða þessa hluti og það er mjög varasamt ef þjóðaröryggisstefna á aldrei að vera annað en viðbragð við einhverju sem gerist í samtímanum. Auðvitað á að hugsa til framtíðar og velta fyrir sér hvaða myndir gætu birst okkur, hvaða nýju ógnir kunni að steðja að okkur af þeim myndum. Ef eitthvað, þá finnst mér kannski að við höfum verið of varkár og ekki gefið okkur nægan tíma til að skoða það til fulls. Hins vegar höfum við líka verið rækilega minnt á mikilvægi þjóðaröryggis, ekki bara vegna stríðsins sem geisar núna í Úkraínu, árásarstríðs Rússa, heldur líka vegna annars konar ógna sem hefur auðvitað rekið á fjörur landsins síðustu ár. Nærtækast er auðvitað að nefna Covid-faraldurinn, sem er af allt öðrum toga en þeir sem við höfum tekist á við síðustu áratugi þótt við höfum kynnst þeim áður. Síðan auðvitað stöndum við frammi fyrir og munum standa frammi fyrir gríðarlegum loftslagsógnum á næstu árum og áratugum. Það hlýtur að móta endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar og þess vegna er auðvitað löngu tímabært að við séum að fjalla um þetta hér.

Það er rétt sem kemur fram í nefndarálitinu og greinargerðinni með tillögunni að núverandi stefna hefur alveg reynst ágætlega og verið fínn grunnur fyrir þá uppfærslu sem hér er til umræðu. En veruleikinn breytist mjög hratt, heimsmyndin líka og við því þarf einfaldlega að bregðast. Það má segja að mest púður í þessari útgáfu stefnunnar sé lagt í útvíkkun á þeim ógnum og hættum sem við gætum staðið frammi fyrir og stöndum í raun frammi fyrir. Í kjölfarið á því er síðan mjög mikilvægt að stjórnvöld mæti þeim atriðum sem tínd eru til í þjóðaröryggisstefnu með viðeigandi hætti. Það er ekki nóg að setja hana á blað og halda þá að öryggi sé náð. Það verður auðvitað að setja stefnu um einstaka þætti sem eru til umræðu, en það verður líka að fjármagna þá. Það er til lítils að leggja mikla áherslu á netöryggi ef ekkert er svo gert meira með það og það stendur bara á blaði. Þess vegna þarf þingheimur að fylgja því eftir í fjárlagagerð að fjármagna þessa hluti.

Ég er í sjálfu sér sammála því að það er gott og rétt að við horfum núna á heiminn í gegnum örlítið gleiðari linsu en áður og skilgreinum nýja þætti sem geta skapað okkur hættu í framtíðinni. Samt er það þannig að þótt við megum ekki ganga út frá því að eina ógnin sem að okkur steðji séu hefðbundin stríðsátök þá megum við heldur ekki vanmeta þann þátt. Þess vegna grundvallast stefna okkar áfram ekki síst á þátttöku í Atlantshafsbandalaginu annars vegar og hins vegar á tvíhliða samningi við Bandaríkin. Hvort tveggja eru gríðarlega mikilvægir hlutir en ég hefði talið að líkt og nágrannaþjóðir okkar og aðrar þjóðir þá ættum við að horfa enn víðar og velta því fyrir okkur hvort fjölþjóðlegt samstarf í meira mæli sé rétt nálgun til að tryggja öryggi okkar til framtíðar og öryggi á svo margan hátt; efnahagslegt öryggi, félagslegt öryggi og ýmislegt annað. Ég held reyndar að þær ógnir sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem um er að ræða þessar hefðbundnu ógnir eða nýju ógnir sem við tölum svo mikið um, verði aldrei leystar nema í miklu ríkara fjölþjóðlegu samstarfi heldur en við höfum þekkt hingað til.

Af því að ég nefndi Atlantshafsbandalagið áðan þá er það þess vegna gríðarlega mikilvægt að nefndin hafi í sínum meðförum hnykkt á mikilvægi grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins, sem breytist auðvitað frá tíma til tíma og nú síðast á síðasta ári. Jafnframt hefði ég talið að plaggið væri betra með samþykkt breytingartillögu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að samhliða verði unnin varnarstefna fyrir Ísland þar sem grunnur verði lagður að skýrara fyrirkomulagi stjórnsýslu, framkvæmdar, ábyrgðar og fjármögnunar varnarmála Íslands. Mér finnst það hafa komið berlega í ljós í því samtali sem framkvæmdarvaldið hefur átt inni í utanríkismálanefnd að það er ekki alveg á hreinu með hvaða hætti hlutir eru virkjaðir, hver ber ábyrgð á hverju og annað slíkt. Þótt ég geti fyllilega tekið undir með hv. þm. Jóhanni Friðriki Friðrikssyni að ekkert sé því til fyrirstöðu að stefnur sem tengjast einstökum atriðum sem nefndar eru í stefnunni séu unnar sérstaklega, þá held ég að skynsamlegt sé að hnykkja á þessari stefnu sérstaklega vegna mikilvægis hennar fyrir okkur. Því vona ég að hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson velti aðeins fyrir sér hvort hann komi ekki með okkur á endanum og samþykki þessa litlu en að ég held bara ágætu breytingu.

Líkt og ég sagði áðan, þótt það sé gott að við notum svona gleiðari linsu en við höfum gert áður og tökum inn nýja þætti, þá held ég að við hefðum átt að horfa enn víðar á málið. Ekki síst hefðum við núna átt að skoða þátttöku okkar í fjölþjóðlegu samstarfi, hvort og hvernig hún geti ekki örugglega tryggt og stutt betur við þjóðaröryggi til lengri og skemmri tíma. Það er ekkert leyndarmál hér að þá er ég fyrst og fremst að hugsa um augljósasta skrefið, sem er full þátttaka í Evrópusambandinu. Við sjáum það á allra næstu mánuðum þegar Svíar og Finnar eru orðnir aðilar að NATO að þá eru þrjár af fimm stóru Norðurlandaþjóðunum bæði í NATO og Evrópusambandinu. Þá erum við að tala um að 75% af öllum íbúum Norðurlandanna tilheyri báðum þessum samtökum. Af hverju skyldu þau nú vera að velja þessa leið? Jú, það er vegna þess að þau telja að þetta nægi ekki hvort fyrir sig, því þótt áherslur þeirra og verkefni skarist að einhverju leyti þá eru þau líka býsna ólík. Hins vegar kemur fram hjá hverjum fræðimanninum á fætur öðrum og stjórnmálafólki alls staðar úr álfunni að hlutverk Evrópusambandsins mun verða stærra. Það hefur margoft komið fram, jafnvel af hálfu Bandaríkjamanna, að Evrópuþjóðirnar verði að taka meiri ábyrgð á sér og Evrópusambandið mun þess vegna leika miklu stærra hlutverk í framtíðinni í varnar- og öryggismálum, þó svo að grunnurinn í þessum hefðbundnu vörnum verði áfram innan Atlantshafsbandalagsins og okkur er auðvitað líka best borgið þar.

Það sem mér finnst jákvætt við þessa tillögu — ég ætla ekkert að fara í nefndarálitið, það talar fyrir sig sjálft, stefnan gerir það líka og þetta er aðgengilegt öllum — er að á sama tíma og hún viðurkennir mikilvægi þeirrar grunnstefnu sem við höfum byggt á varðandi hefðbundnu áskoranirnar, þá viðurkennir hún líka þessar risaáskoranir sem við stöndum auk þess frammi fyrir og sumar sem við getum kannski ekki einu sinni gert okkur í hugarlund núna, en a.m.k. þær sem við þekkjum. Ég er satt að segja ekkert svo viss um að okkur stafi miklu minni hætta af þessum fjölþáttaógnum, hverjar sem þær eru, og ég held að þær geti birst okkur í öllum mögulegum og ómögulegum myndum og í rauninni kannski miklu óvæntar en það sem við þekkjum í gegnum tíðina. Eitt af því varðar auðvitað bara lýðræðið. Það virkar kannski svolítið einfeldningslegt að standa hér á Íslandi og hafa áhyggjur af lýðræði en samhliða þeirri hröðu tækni sem við upplifum núna og sjáum þróast á einhverjum veldishraða, sem er fyrirbæri sem fæst okkar skilja í daglegu lífi, þá er lýðræði líka stöðugt ógnað þegar fölskum upplýsingum er vísvitandi beitt til að hafa áhrif á stóra hópa. Það er raunverulega mjög auðvelt að hafa áhrif á kosningahegðun, líka hér á Íslandi þar sem 98% þjóðarinnar nota samfélagsmiðla sem einhvers konar fíkniefni.

Að lokum eru það náttúrlega loftslagsmálin, sem eru kannski langmikilvægasta viðfangsefnið og mesta ógnin sem steðjar að okkur, kannski ekki í bráð en a.m.k. í framtíðinni. Þar er svarið alveg klárlega ekki eingöngu vera okkur í Atlantshafsbandalaginu. Þar held ég að við ættum að leita eftir samvinnu og samskiptum við þau fjölþjóðlegu samtök þar sem flest ríki deila með okkur þessum stóru gildum um lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, umburðarlyndi, en hafa líka sýnt okkur að þau ætli að leiða vagninn í baráttunni gegn loftslagsógninni. Það er klárlega Evrópusambandið, hvað sem hver segir.

Það er ákveðin jafnvægislist að mæta þessum hefðbundnu ógnum og taka á hinum nýju. Ég held, þrátt fyrir allt, að þessi stefna sem birtist okkur núna sé ákveðið framfaraskref og í öllum meginatriðum betur til þess fallin að búa okkur öruggari tilveru. Að lokum minni ég þó á að að samþykkt þessarar stefnu lokinni þá hefst vinnan við að tryggja að það sé hægt að framfylgja henni. Til þess vantar stefnu og fjármagn í fjölmörgum málum og ég held að við verðum að standa undir þeim væntingum sem við gefum þegar við samþykkjum þetta eftir nokkra daga.